140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

framtíð innanlandsflugsins.

[16:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að tíunda mikilvægi þessa málefnis sem við ræðum hér. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Það eru tvær ógnir sem steðja að innanlandsfluginu, annars vegar verðlagningin, og ég vil taka undir það sem hefur komið hér fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og fleirum varðandi hættulega þróun í þeim efnum, og hins vegar staðsetningin. Það er alveg ljóst eins og hér hefur komið fram að verði völlurinn fluttur frá Reykjavík er í raun enginn valkostur annar í stöðunni en að flytja hann til Keflavíkur. Það mundi draga verulega úr innanlandsfluginu og þeirri mikilvægu þjónustu sem það veitir. Á því hafa verið gerðar kannanir, það liggur fyrir. Um það þarf ekki að deila.

Mikilvægi vallarins er mjög mikið og lega hans skiptir miklu. Hann þjónar mikilvægu hlutverki sem varaflugvöllur. Það hefur komið fram í skýrslu að gera þyrfti nýjan varaflugvöll fyrir millilandaflugið á Suðurlandi ef Reykjavíkurflugvöllur yrði lagður niður. Það er góð nýting á þessum velli. Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar á að loka tveimur flugbrautum á vellinum fyrir árið 2016 og á því ári. Þá fer nýtingin á vellinum niður í 82,4%. Það þýðir einfaldlega að völlurinn lokar. Þannig að miðað við núverandi skipulag lokar Reykjavíkurflugvöllur árið 2016. Ekki er því seinna vænna en að taka til hendinni.

Ég vil fagna því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að hann vilji að flugvöllurinn sé í Reykjavík. Það er mjög mikilvægt að hann greini okkur frá því hver staðan er í viðræðunum við Reykjavíkurborg um framtíðarstaðsetningu vallarins.

Í skjali í samgönguáætlun stendur að teknar verði upp viðræður og tryggt að Reykjavíkurflugvöllur geti þjónað sem innanlandsflugvöllur á fullnægjandi hátt í framtíðinni. Það er áhugavert að formaður nefndarinnar sem um þetta fjallar, samgöngunefndar, er Dagur B. Eggertsson.

Hér erum við að tala um mjög mikilvægt mál. Það verður að taka til hendinni strax. Það er ekki hægt að hafa þessa óvissu í kringum starfsemi Reykjavíkurflugvallar. Starfsemin og aðbúnaður starfsfólks og þeirra sem nota innanlandsflugið er algjörlega ófullnægjandi.