140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

framtíð innanlandsflugsins.

[16:57]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að benda á fleiri tölulegar staðreyndir varðandi Reykjavíkurflugvöll. Hér var sagt að góð nýting væri á flugvellinum. Í kringum 1.000 manns á dag fara um Reykjavíkurflugvöll með áætlunarflugi. Flugvallarsvæðið er um 130 hektara stórt. Kaffi París hérna hinum megin við Austurvöll afgreiðir fleiri á einum degi en gert er á öllu því landsvæði sem fer undir Reykjavíkurflugvöll. Hvergi í heiminum væri það góð nýting á landsvæði í miðborg höfuðborgar.

Reykjavíkurborg nær núna yfir jafnmikið landsvæði og öll París innan hringbrautarinnar í kringum þá borg. Þar búa á milli 3 og 4 milljónir manna, þannig að við hljótum að sjá það öll sem eitt að höfuðborgarsvæðið þarf að fara að byggjast inn á við en ekki halda áfram að byggjast út á við. Það þarf að byggja í Vatnsmýrinni og byggja þéttar í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu.

Ísland er borgríki í öllum venjulegum skilningi orðsins. Einu löndin í öllum heiminum þar sem er hærra hlutfall íbúa á einu svæði eru Hong Kong og Singapúr. Ísland er í þriðja sæti í heiminum hvað þetta varðar. Þessu mega menn ekki skella skollaeyrum við. Við búum í borgríkinu Íslandi og því þarf einfaldlega að velta upp.

Ég sagði áðan að ég væri stuðningsmaður innanlandsflugs. Ég er það svo sannarlega, en ekki innanlandsflugs í Vatnsmýrinni með þeim formerkjum sem fyrirhugað er og sem margir styðja.

Kosningin sem fram fór í Reykjavík var kosning, það var ekki skoðanakönnun, þannig að það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði áðan um að ekki hefði verið marktækur munur á fylkingum var algjörlega rangt. Það fór fram kosning (Gripið fram í.) og meiri hluti var fyrir því að flugvöllurinn færi.

Hvað varðar ferðalög landsbyggðarfólks til Reykjavíkur hafa náttúrlega orðið gríðarlegar tækniframfarir í fjarskiptum. Núna er ekkert mál að halda fundi hvar sem er á landinu eða hvar sem er í heiminum með fjarfundabúnaði þannig að full þátttaka allra í slíkum fundum náist.

Hagsmunir Reykvíkinga og íbúa alls höfuðborgarsvæðisins liggja í því að byggt verði á flugvallarsvæðinu. Það hvort nýr flugvöllur (Forseti hringir.) verði á Hólmsheiði eða flugið verði flutt til Keflavíkur, er kannski aukaatriði. En flugvöllurinn þarf að fara úr Vatnsmýrinni.