140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[17:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999, með síðari breytingum. Markmið frumvarpsins er annars vegar að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög og hins vegar að breyta fyrirkomulagi um skráningu barna í trúfélög og lífsskoðunarfélög.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar athugasemdir við að lífsskoðunarfélög njóti ekki jafnræðis á við skráð trúfélög. Þetta hefur meðal annars komið fram í athugasemdum við drög að skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi og í erindum lífsskoðunarfélaga til ráðuneytisins. Þá hefur mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna jafnframt óskað eftir upplýsingum um stöðu lífsskoðunarfélaga samanborið við stöðu skráðra trúfélaga í tengslum við framkvæmd Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Í erindum til ráðuneytisins hefur meðal annars verið á það bent að ójafnræði sé í því fólgið að félögum sem aðhyllast tiltekin trúarbrögð sé heimiluð formleg skráning á grundvelli núgildandi laga um skráð trúfélög með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir, en að sama eigi ekki við um lífsskoðunarfélög sem eru ekki trúarlegs eðlis en miða starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt. Þá hefur jafnframt verið vakin athygli á því ójafnræði sem er milli einstaklinga eftir því hvort þeir aðhyllast trúarbrögð skráðra trúfélaga eða hvort þeir leggi rækt við samtök sem kenna sig við veraldlega lífsskoðun. Skráð trúfélög geta til að mynda framkvæmt athafnir á borð við hjónavígslur en sambærilegar athafnir lífsskoðunarfélaga hafa ekkert lagalegt gildi í dag. Þá greiðir ríkissjóður sóknargjöld úr ríkissjóði með hverjum einstaklingi sem er 16 ára og eldri sem skráður er í þjóðkirkjuna eða trúfélag. Lífsskoðunarfélög sitja því ekki við sama borð og skráð trúfélög.

Það fyrirkomulag í núgildandi lögum um skráð trúfélög að barn skuli frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess hefur einnig sætt gagnrýni. Jafnréttisstofa komst að þeirri niðurstöðu í lok ársins 2008 að annmarkar væru á umræddu ákvæði laganna um skráð trúfélög sem kveður á um að barn skuli frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess og tók fram að það væri tæpast í samræmi við jafnréttislögin og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns.

Ég mun nú gera nánari grein fyrir helstu breytingum á lögunum.

Í 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 2. gr. laganna. Lagt er til að heimilt verði að skrá lífsskoðunarfélög líkt og heimilt er að skrá trúfélög utan þjóðkirkjunnar samkvæmt núgildandi lögum. Við skráningu öðlast lífsskoðunarfélög þau réttindi og skyldur sem skráð trúfélög njóta samkvæmt lögum.

Í 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 3. gr. laganna. Lagt er til að skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags verði þau að um sé að ræða félag sem byggist á siðferði og lífsskoðunum óháð trúarsetningum og tengja má við þekkt hugmyndakerfi í heimspeki og siðfræði. Þá sé það jafnframt skilyrði fyrir skráningu að um sé að ræða lífsskoðunarfélag sem miði starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt, eigi sér sögulegar eða menningarlegar rætur og fjalli um siðfræði og þekkingarfræði með ákveðnum og skilgreindum hætti.

Enn fremur er lagt til að skilyrði skráningar fyrir bæði trúfélög og lífsskoðunarfélög verði þau að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug, tilgangur þess stríði ekki gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem taki þátt í starfsemi þess og styðji lífsgildi félagsins í samræmi við þær kenningar sem félagið sé stofnað um. Þá sé það skilyrði að félagið sjái um tilteknar athafnir, svo sem útfarir, giftingar, skírnir eða nafngjafir og fermingar eða aðrar hliðstæðar athafnir. Ekki er gert ráð fyrir því að félög annist allar þær athafnir sem nefndar eru hér að framan kjósi félög til dæmis einungis að sjá um tilteknar athafnir, svo sem giftingar eða nafngjafir. Félög öðlast þó með skráningu þau réttindi sem lög ákveða til að framkvæma tilteknar athafnir. Ráðherra verði heimilt að ákveða með reglugerð tiltekinn lágmarksfjölda félagsmanna til þess að heimilt sé að skrá trúfélag eða lífsskoðunarfélag samkvæmt lögunum.

Í 5. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 4. gr. laganna þar sem meðal annars er lagt til að ráðherra leiti álits sömu nefndar þegar um er að ræða skráningu á trúfélögum eða lífsskoðunarfélögum eins og gert er samkvæmt núgildandi lögum en að nefndin verði styrkt með því að bæta við fjórða nefndarmanni. Skal sá nefndarmaður vera tilnefndur af sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Er þetta lagt til með hliðsjón af eðli lífsskoðunarfélaga en í nefndinni eru einnig fulltrúar frá félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Þá er lagt til að formaður nefndarinnar skuli vera skipaður samkvæmt tilnefningu lagadeildar hér á landi á háskólastigi en samkvæmt núgildandi lögum skal formaður nefndarinnar vera tilnefndur af lagadeild Háskóla Íslands. Skal atkvæði formanns nefndarinnar hafa tvöfalt vægi ef atkvæði nefndarmanna falla jafnt.

Í 8. gr. eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna. Lagt er til að forstöðumönnum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga verði heimilt að tilnefna einstaklinga innan þess félags sem þeir veita forstöðu til að annast þau embættisverk sem forstöðumanni skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags eru falin samkvæmt lögum. Um hæfi umræddra einstaklinga gilda sömu hæfisskilyrði og reglur og um forstöðumenn. Lagt er til að ráðuneytið geti samkvæmt umsókn forstöðumanns veitt tilnefndum einstaklingum löggildingu til þess að gegna verkum forstöðumanns, en eigi lengur en til þriggja ára í senn. Tilnefndir einstaklingar skulu starfa á ábyrgð og í umboði forstöðumanns viðkomandi skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags. Eru þessar breytingar lagðar til með tilliti til aukinna umsvifa forstöðumanna sem geta gert það að verkum að erfitt reynist fyrir þá að sinna einir þeim verkum sem þeim eru falin.

Í 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 8. gr. laganna um aðild að skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum. Samkvæmt núgildandi lögum skal barn frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess. Til þess að tryggja jafnrétti foreldra hvað þetta varðar eru lagðar til breytingar á ákvæðinu sem eiga að hluta til fyrirmynd í norskum lögum um trúfélög og eldri lögum um trúfélög, nr. 18/1975. Lagðar eru til breytingar þess efnis að séu foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess skuli barn heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess en ella vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrana. Ef foreldrar barns, sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess, heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga skuli þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá til hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli heyra. Fram til þess tíma verði þessi staða barnsins ótilgreind. Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal barn heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess en annars vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrið.

Áréttað skal að foreldrar barns sem fara með forsjá þess geta síðan ávallt tekið ákvörðun um að skrá barn úr því trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sem það heyrir til við fæðingu eða skráð barn í annað trúfélag eða lífsskoðunarfélag í samræmi við 3. mgr. 8. gr. laganna.

Til að tryggja jafnræði lífsskoðunarfélaga við skráð trúfélög á öllum sviðum samfélagsins eru í 14. gr. frumvarpsins einnig lagðar til breytingar á tilteknum lögum.

Með breytingum á lögum um sóknargjöld o.fl. öðlast skráð lífsskoðunarfélög rétt á ákveðinni hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt.

Með breytingum á hjúskaparlögum fá forstöðumenn skráðra lífsskoðunarfélaga heimild til þess að framkvæma hjónavígslur og leita um sættir hjóna samkvæmt hjúskaparlögum. Jafnframt er lagt til að einstaklingum sem starfa í umboði forstöðumanna skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og fengið hafa löggildingu ráðuneytisins og uppfylla skilyrði 7. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög verði einnig heimilt að annast hjónavígslur og leita um sættir hjóna. Þá eru einnig lagðar til breytingar á lögum um mannanöfn, lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, lögum um fullnustu refsinga, lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um meðferð einkamála.

Hæstv. forseti. Ég hef hér gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins. Ég tel að verði þetta frumvarp að lögum sé stigið veigamikið skref. Hér á landi býr fjöldi fólks sem aðhyllist ekki sérstök trúarbrögð. Hluti þess fólks hefur valið sér veraldlegan vettvang fyrir mannrækt, siðferðisþroska og tilvistarspurningar. Einstaklingar og samtök hafa í áratugi bent á ójafnræði milli þeirra sem í slíka mannrækt leita og hinna sem nota trúarbrögð í sambærilegum tilgangi. Það er mín von að frumvarpið nái fram að ganga hér á Alþingi og að með því verði staða þessara hópa jöfnuð.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.