140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[17:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna en er með nokkrar spurningar. Ég mun ásamt öðrum nefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd að sjálfsögðu fara vel yfir þetta mál sem vekur mig mjög til umhugsunar. Ég vil segja strax að sú umræða að félög eigi að njóta jafnræðis er mjög skiljanleg en ég vil um leið undirstrika að mér þætti vænt um að heyra skýran vilja ráðherra varðandi það hvort íslenskt samfélag muni engu að síður byggja áfram á þeim kristnu gildum sem hafa mótað löggjöf, stjórnarskrá og fleira í samfélagi okkar.

Þrjár spurningar að öðru leyti til hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi stendur í greinargerð að ekki þyki rétt að setja skilyrði í lög um lágmarksfjölda í skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að setja slíkan lágmarksfjölda í reglugerð gagnvart trú- og lífsskoðunarfélögum og hver er þá sá lágmarksfjöldi?

Önnur spurningin er um sóknargjöld. Það kemur alveg skýrt fram í áliti fjárlagaskrifstofu að ekki er ætlunin að auka útgjaldaramma innanríkisráðuneytisins vegna þessarar löggjafar, ekki nema ráðherra forgangsraði þá í þeirra þágu. Hvað verður þá gert? Lífsskoðunarfélögin munu hafa aðgang að sóknargjöldum þegar þau verða skráð í samræmi við hlutverk sitt. Munu þá sóknargjöld til sókna á Íslandi sem við vitum vel að hafa verið skert verulega á umliðnum árum, verða skert enn frekar vegna þessa frumvarps? Munu þau sæta annarri skerðingu eða meiri skerðingar vegna frumvarpsins?

Ég vil líka velta því upp hvers konar lífsskoðunarfélög þetta geta verið. Við vitum að þau eru ýmis starfandi og það er ekkert að því en ég velti hins vegar fyrir mér hvort ráðherra telji rétt að félög geti starfað eingöngu á þeim grundvelli (Forseti hringir.) að fara gegn trúfélögum, hvort hann geti hugsað sér að heimila lífsskoðunarfélög sem fari beinlínis gegn trúfélögum.