140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[17:39]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög, með síðari breytingum (lífsskoðunarfélög, aðild barna að skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum o.fl.). Þetta er frumvarp sem ég tel að fylgi þeirri þróun sem hér hefur orðið á undanförnum árum. Við erum orðin að mörgu leyti fjölmenningarsamfélag. Það er ólíkt eftir sveitarfélögum hvernig samsetning íbúanna er, á sumum stöðum eru íbúar af erlendum uppruna orðnir allt að því jafnfjölmennir og sums staðar fjölmennari en þeir sem eiga sér íslenskar rætur. Samhliða fjölmenningarsamfélögum er aukinn fjöldi trúarskoðana og trúariðkana. Það er eðlilegt að áhugi sé á því að þeir sem iðka aðra trú en kristna trú eða einhver afbrigði af þeim trúfélögum sem hér eru geti iðkað trú sína og eins að þeir sem aðhyllast ekki trúarbrögð sem slík heldur mannræktarsjónarmið og siðmennt geti einnig verið með starfsemi sem standi þá jafnfætis trúfélögum eins og þau eru skráð í dag.

Það eru örlitlar athugasemdir eða fyrirspurnir sem mig langar að beina til hæstv. ráðherra, sem ég tel að við munum þá skoða í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Það er í fyrsta lagi það, sem á ekki eingöngu við þetta frumvarp heldur er það í lögum í dag, að greidd eru úr ríkissjóði sóknargjöld vegna skráðra félaga sem eru 16 ára og eldri. Ég vil beina þeim spurningum til hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að endurskoða þau aldursmörk hjá öllum skráðum trúfélögum. Og ef frumvarpið verður að lögum verði það skoðað hjá lífsskoðunarfélögum einnig, þ.e. að börn séu skráð börn til 18 ára aldurs og að við höfum sömu skilgreiningu á aldursmörkum barna. Ég tel að það sé mikilvægt á svo mörgum sviðum hvað varðar vernd barna, hvað varðar réttarkerfið og skatta og skyldur sem lagðar eru á börn, að börn séu þá skilgreind til 18 ára aldurs og að við höfum það þá þannig. Eins hvað varðar fjölda félagsmanna, lágmarksfjölda í skráðum félögum. Það er enginn þröskuldur í dag, engin lægri mörk. Ég tel rétt að skoða það líka, að ekki sé nóg að lífsskoðunarfélag sé myndað á siðferðisgildi og mannrækt sem á sér sögulegar eða menningarlegar rætur og fjallar um siðfræði og þekkingarfræði með ákveðnum og skilgreindum hætti, eins og segir í 4. gr., heldur þurfi líka ákveðinn fjölda félagsmanna til að vera skráð sem félag. Mér finnst vera munur á því hvort fólk tekur sig saman og iðkar sína siðfræði og þekkingarfræði — mér finnst það vera athugunar vert hvort ekki eigi að hafa lágmarksfjölda félagsmanna og þá að mínu mati í fljótu bragði hærri en 25.

Annað var það ekki, hæstv. forseti. Ég vildi koma þessum ábendingum að þar sem ég kom ekki upp í andsvar. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps sem vekur upp hugrenningar um það fjölmenningarsamfélag sem við búum í í dag.