140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[17:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ágætu og að mörgu leyti gagnlegu umræðu, því að hér hafa komið fram ýmsar ábendingar sem eðlilegt er að taka til skoðunar við frekari vinnslu málsins í þinginu annars vegar og við reglugerðarsmíð hins vegar. Það sem kannski snýr að lagasetningunni eru aldursákvæðin sem hér hafa verið gerð að umræðu. Vísað er til þess að hér sé stuðst við 16 ára aldur en ekki 18 ára aldur sem sé hin almenna regla. Þetta er samkvæmt ábendingu sem kom innan úr stjórnsýslunni og þá með hliðsjón af öðrum lögum og eðlilegt að þingið taki til skoðunar í afgreiðslu sinni. Ég fellst alveg á þau rök sem hér hafa verið sett fram að eðlilegt sé að hafa samræmi þarna milli annarra réttinda sem einstaklingurinn fær við 18 ára aldur.

Síðan er spurning um fjöldann í félögum. Ég er líka á því að eðlilegt sé að hafa einhver fjöldatakmörk þar. Í framkvæmd hefur talan verið 25, það er ekki há tala eins og hér var bent á en þess eru þó dæmi að söfnuður hafi færri en þessu nemur. Spurning er hvort setja eigi í reglugerð ákvarðanir um einhverjar fjöldatakmarkanir eða einhvern staðal í því efni og þá tel ég eðlilegt að styðjast við álit þeirrar nefndar sem um þessi mál fjalla.

Síðan er hitt, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti alveg réttilega á, að skilgreiningarnar sem fram eru settar á lífsskoðunarfélagi eru harla matskenndar eðli málsins samkvæmt. Við erum að fjalla um siðferðisgildi, við erum að fjalla um mannrækt og annað af því tagi og einmitt á þeirri forsendu er ákvörðunarvaldið hjá nefnd sem leggur mat á hvað rétt sé og rangt í því efni. Þegar spurt var í umræðunni, ef sú staða kæmi upp að félag sem hefði andfélagsleg eða ósiðleg skulum við segja sjónarmið að leiðarljósi, hvort slíkt félag kynni að fá skráningu sem lífsskoðunarfélag, þá hygg ég að svo sé ekki vegna þess að samkvæmt þeim skilgreiningum sem við setjum niður á einmitt að koma í veg fyrir að svo geti orðið og þannig vinnur sú nefnd sem hér á í hlut.

Varðandi spurninguna um skráningu barna þá er það svo að ef foreldrar eru ekki sammála er barnið ekki skráð, þá er það utan trúfélaga þar til það hefur aldur til að velja. En við byggjum að öðru leyti, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, á norskri fyrirmynd. Það hefði verið hægt að fara þá leið að hafa öll börn óskráð fram að 16 ára aldri eða 18 ára, ef við breyttum því, en þetta tel ég vera heppilega leið, a.m.k. að svo stöddu, að fara.

Hér hafa komið fram margar ágætar ábendingar og vangaveltur, það er eðlilegt þegar um er að ræða mál af þessu tagi. En ég endurtek það sem ég sagði í lok framsöguræðu minnar að ég vona að málið fái skjóta umfjöllun á þingi og vonandi afgreiðslu fyrir vorið.