140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[18:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þetta síðasta og það eru náttúrlega ýmsar reglur sem við setjum félögum, hvort sem það eru trúfélög eða önnur félög sem njóta stuðnings úr ríkissjóði, frá almennum skattborgurum. Þannig erum við að setja reglur eða skoða skyldur og réttindi þeirra sem eru í slíkum söfnuðum eða slíkum félagsskap, t.d. varðandi kynferðislega misnotkun eða áreitni. Ráðuneytið hefur komið á fót sérstöku fagráði til að taka sérstaklega á málum sem snerta söfnuði. Þegar við erum því að fela samtökum eða trúfélögum eða lífsskoðunarfélögum samfélagslegt hlutverk fylgja því að sjálfsögðu samfélagslegar skyldur og allt þetta þarf að skoða í samhengi.

Ég vil þakka fyrir þær ágætu ábendingar sem hér hafa komið fram og þingnefndin sem fær málið til umfjöllunar mun eflaust leggjast yfir þær. Þegar kemur að því að smíða reglugerð mun ég að sjálfsögðu taka mið af þeim ábendingum sem hér hafa komið fram og kunna að koma fram við frekari umfjöllun um þetta mál hér á þingi.