140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

21. mál
[18:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þessi tillaga sem er hér til seinni umræðu er ekki alveg ný af nálinni, hún var líka flutt á 138. og 139. löggjafarþingi þannig að þetta er í þriðja sinn sem ég flyt hana ásamt meðflutningsmönnum.

Meðflutningsmenn eru úr öllum flokkum. Þeir eru, fyrir utan þá sem hér stendur, hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Þuríður Backman, þannig að þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ræðum þessa tillögu. En nú er hún komin á lokasprett, þetta er síðari umr., og þegar henni er lokið fer málið til atkvæðagreiðslu. Miðað við að öll nefndin er sammála því að gera þetta, að samþykkja tillöguna, lítur vel út með að hún verði samþykkt og er það mjög ánægjulegt að mínu mati.

Ég vil í upphafi þakka sérstaklega hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að hafa haldið röggsamlega á þessu máli í velferðarnefnd. Hv. þm. Eygló Harðardóttir er talsmaður málsins í þeirri nefnd eftir hinu nýja kerfi, samkvæmt þingsköpum sem við vinnum eftir. Þar gerast þingmenn talsmenn mála, „rapportörar“ eins og það heitir á erlendri tungu, og eru þá talsmenn málanna í þingnefnd, halda utan um málið, leggja til hverjir komi í heimsókn og hafa forgöngu um vinnslu málsins í viðkomandi nefnd. Talsmenn gerast svo yfirleitt framsögumenn nefndarálitsins eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir gerði hér.

Þessi nýju vinnubrögð eru mjög til fyrirmyndar. Þetta er annað málið sem sú er hér stendur fer yfir, í annað skipti sem ég þakka talsmanni fyrir að hafa haldið röggsamlega á máli. Hitt málið var um norræna hollustumerkið, Skráargatið, sem hv. þm. Þór Saari var talsmaður fyrir í atvinnumálanefnd. Hann hélt þar mjög vel á því máli þannig að ég tel að þetta kerfi sem við vinnum eftir, samkvæmt nýjum þingsköpum, sé mjög gott og farsælt. Þingmenn, óháð stjórnarmeirihluta eða -minnihluta, taka að sér mál, óháð því hvort þeir eru sjálfir á málunum eða ekki. Þessi vinnubrögð lofa góðu.

Varðandi aðdragandann vildi ég líka taka fram að þetta mál rekur á fjörur Alþingis í gegnum norrænt samstarf. Þetta er ekki fyrsta málið af því tagi sem sú er hér stendur flytur, mál sem er afrakstur norræns samstarfs. Þetta er þriðja málið sem ég man eftir svona í svipan sem ég hef flutt og koma úr norrænu samstarfi. Hin voru að leggja til að setja mörk á hlutfall transfitusýra í mat. Það mál lagði ég fram ásamt fleiri þingmönnum eftir að hafa kynnt mér það í gegnum Norðurlandaráð en Danir eru fyrsta ríkið í heiminum sem setti takmörk á magn transfitusýra í mat. Ég kaus að taka reglu Dana óbreytta upp og flytja hana í þinginu ásamt meðflutningsmönnum úr öllum flokkum. Nú er búið að setja reglugerð í þeim anda þannig að frá því í ágúst höfum við Íslendingar getað treyst á að ekki séu meira en 2% af fituinnihaldi vöru transfitusýrur, sem er mjög lágt hlutfall og mun verja okkur gegn hjarta- og æðasjúkdómum að talsverðu leyti, mjög jákvætt mál.

Svo er það norræna hollustumerkið, Skráargatið, sem ég gat um áðan. Það mál fer líklega í atkvæðagreiðslu á morgun eins og þetta mál. Það er afrakstur norræns samstarfs. Sú er hér stendur kynntist því líka í gegnum Norðurlandaráð og bar það hér inn og við erum líklega að fara að samþykkja það á morgun og tökum merkið þá endanlega í notkun í framhaldinu. Nú þegar eru vörur komnar með Skráargatið, skyr.is, tvær vörur frá Emmess. Að síðustu er svo þetta mál um reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

Árið 2010 var meginþema velferðarnefndar Norðurlandaráðs lífsgæði eldri borgara á Norðurlöndum. Velferðarnefnd Norðurlandaráðs velur sér eitt meginþema á hverju ári. Í ár er það áfengis- og tóbaksvarnapólitík Norðurlandanna. Í fyrra var sjónum beint að því hvernig hægt væri að vinna gegn því að svokölluð gettó verði til þar sem talsverður hópur innflytjenda safnast saman á sama svæðinu. Skapast hafa ákveðin félagsleg vandamál á hinum stærri Norðurlöndum varðandi það og öll ríki eru að vinna gegn því, breyta íbúasamsetningu og byggð o.s.frv. En árið 2010 var meginþemað sem sagt lífsgæði eldri borgara á Norðurlöndunum.

Sú er hér stendur er formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs og í nefndinni var þá líka hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Nú er þar í hennar stað hv. þm. Lúðvík Geirsson. Á hverju sumri fara nefndir Norðurlandaráðs yfir sín mál og kynna sér starfsemi, oftast á Norðurlöndum, sem tengist áherslumálum þeirra. Sumarið 2010 fór velferðarnefnd Norðurlandaráðs til Danmerkur og kynnti sér hvernig Danir sinna eldri borgurum og reyna að bæta lífsgæði þeirra. Þá fengum við upplýsingar um að dönsku sveitarfélögin heimsækja eldri borgara reglulega, einu sinni til tvisvar á ári, þá sem eru 75 ára og eldri, til að fara yfir aðstæður bæði á heimili og varðandi þá þjónustu sem viðkomandi nýtur. Þetta er gert í þeim tilgangi að reyna að tryggja að hinn aldraði geti verið heima sem lengst þannig að hann þurfi ekki að fara of snemma í einhver úrræði til dvalar heldur geti verið heima sem lengst. Farið er yfir það hvaða aðstoð viðkomandi þarf á að halda. Þarf að aðstoða við þrif, innkaup, þjálfun eða eitthvað slíkt? Er hægt að breyta fyrirkomulagi innan húss hjá viðkomandi, taka þröskulda o.s.frv., mottur burt og annað til að minnka líkur á falli? Er hægt að þjálfa viðkomandi, tryggja að hann geti gengið stigana sem lengst svo að hann geti farið út að kaupa í matinn o.s.frv.? Þetta er allt skoðað í þessum heimsóknum. Danirnir hafa gert þetta um nokkurt skeið og þeir segja að afraksturinn séu bætt lífsgæði hins aldraða, færri innlagnir á stofnanir og að sparast hafi talsvert mikið af fjármagni varðandi þessar forvarnaheimsóknir.

Ef við skoðum þetta hér á Íslandi er alveg ljóst að við höfum gert allt of lítið af þessu, við höfum þjónustað hinn aldraða of lítið heima og við höfum þar af leiðandi tekið fólk of hratt og of snemma — og það trúir þessu eiginlega enginn þegar maður segir þetta en þannig er það — inn á dvalarheimili. Ekki hefur nógu mikil áhersla verið lögð á að sinna fólki heima. Þessu vill enginn trúa af því að menn heyra talsverða umræðu um biðlista en það sýnir sig að við erum með frekar hátt hlutfall rýma miðað við önnur Norðurlönd. Af hverju ættum við að vera með hátt hlutfall rýma og hærra en hin Norðurlöndin?

Þetta hefur komið OECD mjög á óvart og þeir hafa verið að koma með leiðbeiningar til okkar. Staðan er sú að við erum með sem sagt frekar hátt hlutfall rýma en þeim er misdreift. Sum svæði eru með frekar fá rými — nú er ég að tala um hjúkrunarrými — og önnur sem eru með frekar mörg hlutfallslega. Þetta hefur komið OECD á óvart af því að íslenska þjóðin er ung. Og af því að hún er ung ætti hún ekki að vera með fleiri rými en hinar Norðurlandaþjóðirnar sem eru ekki eins ungar.

OECD segir að líklega megi rekja þetta háa hlutfall hjúkrunarrýma á Íslandi til þess að framboð heimaþjónustu sé ekki nægjanlegt. Það vanti millilausnir, svo sem íbúðir fyrir aldraða, í nálægð hjúkrunarheimila. Við erum ekki búin að byggja upp nógu öflugt kerfi sem á að taka við hinum aldraða áður en hann þarf að fara á hjúkrunarheimili. Þetta hefur reyndar breyst til batnaðar hin seinni ár, við erum, að mínu mati, ekki að taka eins marga of snemma inn eins og gert var hér áður fyrr og það sýna tölur um meðallegutíma á hjúkrunarheimilum. Meðallegutíminn hefur styst, sem þýðir að fólk er að koma veikara inn, þannig að hægt hefur verið að þjónusta fólk lengur heima. Bæði hefur félagsþjónusta sveitarfélaga og heimahjúkrun sem ríkið stendur fyrir — við höfum verið að efla þau úrræði þannig að við höfum verið á réttri leið hin seinni ár.

En við fórum því miður að mínu mati of seint af stað, við einblíndum of mikið á endalausnina sem eru hjúkrunarrými sem er næsta stig við sjúkrahús. Það er vegna innbyggðra hvata þannig að það mátti segja sér að þetta mundi gerast, sérstaklega í ljósi þess að félagsþjónustan, þ.e. aðstoð við þrif og innkaup og slíkt, hin léttari aðstoð, hefur verið greidd af félagsþjónustu sveitarfélaga en heimahjúkrun hefur verið greidd af ríkinu. Oftast hafa hjúkrunarfræðingar komið heim til fólks og sinnt hinni þyngri umönnunarþörf. Því miður hefur verið tilhneiging til þess fram á hin seinni ár að sveitarfélög hafa viljað ýta þessum kostnaði sem fyrst yfir á ríkið. Maður skilur það að vissu leyti af því að það sparar sveitarfélaginu fjármagn að þurfa ekki að borga mikla félagslega heimaþjónustu heldur ýta því sem fyrst yfir á ríkið. Þær sjúkrastofnanir sem hafa verið um allt land hafa líka verið stórir og mikilvægir vinnustaðir þannig að þjónusta hefur byggst upp í kringum þá. En þetta hefur allt verið á réttri leið og með samþykkt þessarar tillögu erum við að stíga enn eitt skrefið, held ég, í átt til þess að efla þjónustu heima fyrir hinn aldraða þannig að hann geti verið sem lengst heima.

Ég vil taka undir þær ábendingar sem velferðarnefnd hefur komið með í þessu máli í nefndaráliti sínu. Þar er meðal annars bent á að á þjónustusvæði Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri hefur verið farið í svona heimsóknir og það hefur tekist vel til og þeir hafa náð góðum árangri þar. Þannig að það er vísir að þessu nú þegar, alla vega á Akureyri og líklega á fleiri stöðum, eitthvað hafa menn gert í Kópavogi líka man ég. Velferðarnefndin segir að það sé mjög mikilvægt, og ég vil taka undir það, að verkefnið sé strax í upphafi þarfa- og kostnaðargreint og umfang þjónustunnar skýrt afmarkað, t.d. varðandi aldur þeirra einstaklinga sem þjónustunnar njóta, tíðni heimsókna og kostnað, og það sé nauðsynlegt strax í upphafi að afmarka hvernig verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sé háttað. Þetta er algjört lykilatriði.

Það er líka tilgreint hér að þó að flytja eigi málefni aldraðra frá ríkinu til sveitarfélaga sé það mat velferðarnefndar að ekki eigi að stoppa þetta góða mál, ekki eigi sem sagt að koma í veg fyrir að brýnt hagsmunamál, eins og það sem felst í þessari tillögu, verði stoppað út af þessari yfirfærslu, að við förum strax í þessar forvarnaheimsóknir. Síðan er líka lögð áhersla á að sjálfsákvörðunarréttur aldraðra verði virtur varðandi útfærslu verkefnisins. Þar er meðal annars átt við að þeir eldri borgarar sem vilja ekki þiggja svona heimsókn fái hana ekki. Það er ekkert eðlilegt að farið sé heim til fólks sem vill ekki fá neinn heim til sín. Það er ákveðin friðhelgi heimilisins sem þar ríkir og að hægt sé að afþakka slíkar heimsóknir.

Ég held líka að skoða verði aldurinn vel. Fólk er almennt að verða hressara með aldrinum eftir því sem tækninni fleygir fram — mataræði verður betra og við höfum meiri upplýsingar tiltækar til að lifa betra lífi og lengur. Það þarf því sjálfsagt að endurskoða þennan aldur við og við til að vera ekki með ofþjónustu, við eigum ekki að fara heim til fólks sem er fullfrískt og hresst og gera það að óþörfu. Þó þarf að vera skipulag á þessu þannig að farið sé heim til fólks með reglubundnum hætti til að geta veitt því þjónustu áður en það verður of veikt til að vera heima.

Ég vil að lokum þakka kærlega fyrir þá vinnu sem unnin hefur verið í velferðarnefnd. Ég hlakka til að fá að greiða atkvæði um þetta mál, líklega á morgun. Ég mun að sjálfsögðu segja já, allir hljóta að hafa áttað sig á því sem hafa hlustað á þessa ræðu hér. Þetta er mjög gott mál.