140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

yfirlýsing viðskiptaþings og fundur með forsvarsmönnum sveitarfélaga.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst það athyglisvert, af því að viðskiptaþing er nefnt hér, að það skuli vera ein aðalfréttin af því þingi að sú sem hér stendur hafi ekki getað mætt á það þing. Ég hef mætt á þrjú viðskiptaþing og hef leitast við að mæta þar þegar ég hef mögulega getað en í þetta skipti gat ég það ekki. En ég tek eftir því að það vakti mikla athygli, og ég er auðvitað mjög ánægð með það og djúpt snortin og hrærð yfir því, að mín hafi verið saknað á þessu þingi. Mogginn saknaði mín það mikið að hann birti nokkra kafla úr ræðum mínum af fyrri viðskiptaþingum til upprifjunar. Ég held að það hafi verið ágætt vegna þess að mjög margt gott kom fram í þeim ræðum sem snertir það sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. atvinnulífið.

Það vill svo til að einmitt núna, þegar atvinnulífið talar niður til stjórnvalda, eins og hv. þingmaður nefndi — ég held þó að það hafi ekki verið svo hátt hlutfall eins og hv. þingmaður nefndi — er staðan sú að hagvöxtur á Íslandi er hvað mestur í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég held að það ætti að teljast nokkuð gott. Það er mikil hreyfing á ýmsum þáttum í atvinnulífinu, eins og fjárfestingarsamningum sem eru í gangi bæði fyrir norðan og sunnan. Ég hef farið yfir það hér að ýmislegt er í gangi sem gerir okkur bjartsýn á að við getum náð því sem við ætluðum okkur í kjarasamningum, að fjárfesting aukist um 20% á árinu 2014. Hún hefur þegar hækkað verulega og mun á þessu ári vera um 16%. Það er mjög margt jákvætt að gerast í atvinnulífinu sem ég hefði gjarnan viljað hafa tækifæri til að ræða á viðskiptaþingi en því miður komst ég ekki þangað. Það hefði þó verið full ástæða til að rifja upp þann (Forseti hringir.) gang sem er í atvinnulífinu núna.