140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

fjárveitingar til heilbrigðisstofnana.

[10:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það sem út af stendur í rauninni eftir þetta svar hæstv. ráðherra er að allar athugasemdirnar sem settar voru fram við fjárlagagerðina af hálfu minni hlutans í fjárlaganefnd hafi verið réttmætar. Við erum hins vegar með þá stöðu uppi núna að farið er að deila úr þessum potti til að mæta þeim áherslum sem þingmenn höfðu uppi í gagnrýni sinni á þær tillögur sem fjárlagafrumvarpið innihélt.

Hæstv. ráðherra nefndi uppgjör og frystingu á halla. Þá er mjög athyglisvert að sjá að í þeirri ráðstöfun á potti velferðarráðuneytisins á árinu 2011 er gert ráð fyrir 30 millj. kr. framlagi til einnar heilbrigðisstofnunar upp í hallarekstur ársins 2011, þrátt fyrir að samkomulag lægi fyrir við fjármálaráðuneytið um að sú stofnun væri með frystan halla og ætti þar af leiðandi ekki að fara fram úr. Þau áform gengu ekki eftir á árinu 2011 en engu að síður til að mæta þeim umframrekstri er farið inn í þennan pott og hallinn bara bættur (Forseti hringir.) þrátt fyrir þetta samkomulag. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það sé ekki hans skilningur og vilji að menn setjist í sameiningu yfir það og reyni að móta stefnu til lengri tíma þannig að þetta verklag þurfi ekki að endurtaka sig.