140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

fjarvera forsætisráðherra á viðskiptaþingi.

[10:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að menn reyni að halda ró sinni þótt hér sé spurt, þetta er einfaldlega það viðhorf sem birtist okkur eftir umrætt viðskiptaþing og það viðhorf sem fólkinu sem þar sat fannst forsætisráðherrann sýna atvinnulífinu með fjarveru sinni vegna þess að áralöng hefð er fyrir því að forsætisráðherra taki frá tíma til að mæta á viðskiptaþing og flytja þar erindi. Viðskiptaþing er ákveðið með ágætisfyrirvara þannig að það ættu að vera hæg heimatökin að taka frá þann tíma.

Athugasemdir varðandi samráð ríkisstjórnarinnar og samkomulagið milli atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar birtast okkur í blöðum á hverjum degi. Hvernig fór með stöðugleikasáttmálann, hverjar eru yfirlýsingar SA og ASÍ vegna kjarasamninganna? Það fer ekki alveg saman við það sem hæstv. forsætisráðherra heldur fram. Og þá er rétt að minna á það, frú forseti, að hæstv. forsætisráðherra hefur setið í ríkisstjórn í fimm ár og hefur því haft ágætistíma til að taka á þeim málum sem hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra ýjaði hér að að Sjálfstæðisflokkurinn bæri einn ábyrgð á.