140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

eignarhald á bönkunum.

[11:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við getum tekið langa umræðu um krónuna og hvaða áhrif hún hefur haft. Ég dreg ekkert undan því að hún hefur haft ágætisáhrif að því er varðar útflutningsafurðir okkar, sjávarútveginn o.s.frv. og skilað miklu í þjóðarbúið. Svo er líka hin hliðin á krónunni sem hv. þingmaður verður að viðurkenna, að krónan hefur haft mjög slæm áhrif að því er varðar skuldastöðu og kaupmátt heimilanna. Það er ekki hægt að neita því.

Varðandi upplýsingar um eignarhlut í bönkunum stendur ekki á ríkisstjórninni að upplýsa það sem hægt er og eðlilegt að gera í því sambandi. Kröfuhafar eiga stærstan hlut í Arion banka og Íslandsbanka. Sú leið var farin til að forða því að ríkissjóður þyrfti að leggja fram gífurlega mikla fjármuni til endurreisnar (Forseti hringir.) bankanna. Þegar upp er staðið hygg ég að það hafi verið skynsamlegri leið (Forseti hringir.) en að við legðum alla þessa (Gripið fram í.) peninga í bankana.