140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

framfærsluuppbót Tryggingastofnunar.

[11:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. velferðarráðherra um framfærsluuppbótina hjá Tryggingastofnun sem tekin var upp í reglugerð af þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, haustið 2008 en síðan sett í lög í desember 2010 í bandormi sem fékk ekki mikla umræðu og þetta atriði ekki neina, hvorki í umsögnum né umræðum um málið, enda var þá verið að ræða fjöldamörg mál.

Þetta gerir það að verkum að lífeyrisþegi sem býr einn og er með allt að 70 þús. kr. á mánuði fær ekkert meira samanlagt úr lífeyrissjóði og Tryggingastofnun en annar sem hefur aldrei greitt í lífeyrissjóð. Áratugagreiðslur í lífeyrissjóði eru bara lagðar niður. Ég geri ráð fyrir að helmingur sjóðfélaga í lífeyrissjóðum sé með minna en 70 þús. kr. á mánuði og réttindi þeirra eru þar með einskis virði miðað við að hafa ekki greitt neitt í lífeyrissjóð. Ég lít á þetta sem atlögu að lífeyriskerfinu og spyr hæstv. velferðarráðherra hvernig hann hyggist bregðast við. Ætlar hann að afnema þessa framfærsluuppbót sem var á sínum tíma hugsuð sem velferðaratriði, að hækka laun fólks úr 150 í 180 þús. kr., þess sem býr eitt, þegar hann sér að þetta hefur þau áhrif á lífeyrissjóðina að helmingur sjóðfélaga fær ekkert fyrir það að hafa borgað í lífeyrissjóð í áratugi, alla starfsævi?