140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

framfærsluuppbót Tryggingastofnunar.

[11:05]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er gríðarlega mikilvæg umræða. Þetta snýst um það hvort við ætlum að hafa samtryggingarkerfi á Íslandi eða hvort við ætlum að hafa séreignarsparnað eða séreignarkerfi. Við höfum valið að vera með samtryggingarkerfi og ég er mikill varnaraðili fyrir það.

Þegar menn tala hér um að þeir 6 þúsund sem fá þessa sérstöku framfærsluuppbót taki af einhverjum öðrum er það stórhættuleg umræða. Á síðasta ári sýnist mér að 75 milljarðar hafi verið greiddir út úr lífeyrissjóði til ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega. Ríkiskerfið borgar um 50 milljarða. Getum við sagt að það hafi engan tilgang að borga í lífeyrissjóði? Það kemur mér afar mikið á óvart.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að þegar við lentum í hruni 2008 höfðum við áhyggjur af því að fólk lenti í fátæktargildrum og við höfum reynt að standa gegn því þó að menn geti haft skiptar skoðanir á því hversu vel hafi tekist til. Þá var lágmarksframfærslan í almannatryggingunum um 120 þúsund. Það voru settar inn hækkanir til að tryggja að enginn hefði minna en tiltekna upphæð og þá var framfærsluuppbótin sett inn.

Það er alveg rétt að hún átti að koma eingöngu til þeirra sem höfðu engar aðrar tekjur af því að við ætluðum að tryggja að það fólk sem hefði engar aðrar tekjur hefði þá að minnsta kosti lágmarksframfærslu. Þetta er komið upp í 203 þús. kr. brúttó sem þýðir að einstaklingur sem býr í eigin íbúð hefur aldrei minna en 174 þúsund eftir skatt. Við borgum þetta þeim sem hafa engar aðrar tekjur. Þeir sem hafa tekjur annars staðar fá þetta ekki. Þetta þjappar hópnum saman, það er alveg hárrétt, en þetta er líka hluti af því að innleiða almenna lífeyrissjóðakerfið sem er núna komið upp í 30 þúsund, tekur í raunveruleikanum ekki við af almannatryggingakerfinu fyrr en 2023–2025 ef ekki verða frekari áföll á sjóðunum.

Kerfið er hugsað svona frá upphafi þannig að mér finnst mjög hættulegt að ræða þetta sem einstaklingseign. (Forseti hringir.) Það væri dæmigert fyrir hv. þingmann að fara í þá umræðu, sem hefur gerst áður og valdið okkur vandræðum, þegar við förum að tala um að eignir okkar í stofnfé eða einhverju öðru þurfi að vera alltaf með einhverjum hirði og eign einhvers sérstaks aðila.

Ég er ekki hlynntur því kerfi. Ég er tilbúinn að borga í lífeyrissjóð (Forseti hringir.) þó að ég noti hann aldrei ef ég dey fyrir þann tíma, en ég er líka tilbúinn að einhver annar fái þá þá greiðslu í 30 ár þó að hann hafi ekki borgað nema helminginn af því inn í lífeyrissjóð.