140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

framfærsluuppbót Tryggingastofnunar.

[11:09]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég biðst velvirðingar en verð að viðurkenna að ég verð afar heitur þegar við ræðum um hvernig við búum að lífeyrissjóðunum varðandi samtryggingar- eða séreignarsjóði. Ég tek undir með hv. þingmanni, það var ómaklegt að ég skyldi ekki koma því að í fyrra svarinu að það er alveg hárrétt hjá honum að til lengri tíma á ávinningurinn af því að borga í lífeyrissjóð að vera sýnilegur. Þess vegna fórum við meðal annars í víxlverkunarfrumvarpið sem var samþykkt á síðasta ári þar sem við tryggjum að ef lífeyrir hækkar skerðum við ekki hjá almannatryggingunum. Þess vegna gerðum við líka samkomulag um það að á næstu árum kæmi frítekjumark á lífeyrissjóðina. Þetta er þó til umræðu í stóra almannatryggingahópnum sem hv. þingmaður situr í og þar hefur verið bætt inn núna fulltrúum frá Samtökum atvinnulífsins og opinberum starfsmönnum, einmitt til þess að undirbyggja þessa sameiginlegu virkni lífeyrissjóðanna og almannatrygginganna. Mér heyrist við deila þeirri skoðun að það er gríðarlega mikilvægt að í framtíðinni beri lífeyrissjóðirnir þetta uppi, almannatryggingakerfið sé til vara.

Það er akkúrat þetta „til vara“ sem er í gangi (Forseti hringir.) í augnablikinu í íslenska kerfinu. Á meðan lífeyrissjóðirnir eru ekki sterkari verður almannatryggingakerfið að tryggja að hér hafi fólk lágmarksframfærslu frá opinberum aðilum