140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

21. mál
[11:21]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að farið verði í reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni. Málið var unnið í mikilli sátt í velferðarnefnd og eins og 1. flutningsmaður málsins, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, nefndi vorum við í velferðarnefnd að reyna það í fyrsta skipti að vera með talsmann sem ekki var endilega í stjórnarliðinu. Ég held að það hafi gefist afar vel.

Það er full sátt um þetta mál. Það var dálítil umræða um hvort eðlilegt væri að fara af stað með það núna þar sem líklegt er að málefni aldraðra verði flutt mjög fljótlega frá ríki til sveitarfélaga. Það var einmitt tekin ákvörðun um að það væri mjög gott að gera það núna. Sveitarfélögin vissu þá hvar þau stæðu gagnvart þessu máli. Það var lögð mikil áhersla á samvinnu við þau og að við mættum ekki bíða með öll mikilvæg mál ef um hugsanlegan flutning væri að ræða. Þetta er mjög gott mál og samfylkingarfólk stendur að sjálfsögðu heils hugar að baki því.