140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

21. mál
[11:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða mjög gott mál. Árið 2006 fór Slysavarnafélagið Landsbjörg að mínu frumkvæði í svona verkefni í samstarfi við Kópavogsbæ. Reynslan af því var mjög góð, það var tryggð góð samvinna á milli félagsmálasviðs Kópavogsbæjar og heilbrigðisþjónustunnar í bænum vegna þess að þetta kemur inn á marga þætti. Þetta er í mörgu tilliti mjög gott, þetta eykur öryggi og það er farið yfir ákveðin öryggisatriði á heimilum eldra fólks. Það er rofin einangrun sem er til staðar á vissum heimilum og félagsþjónustan fær þarna upplýsingar sem hún getur nýtt í framhaldi við þjónustu sína við eldri borgara. Ég held að þetta sé mjög gott mál. Þarna þarf að tryggja nána samvinnu allra þeirra aðila sem að koma og reynslan var óyggjandi mjög góð af þessu verkefni í Kópavogi (Forseti hringir.) á sínum tíma.