140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[11:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Með þessum dómi Hæstaréttar sem hér kemur til umræðu er tekið af skarið um það að sú tilraun sem gerð var á sínum tíma með lagasetningu frá Alþingi til að leysa úr svona málum mistókst. Við hjá Sjálfstæðisflokknum höfum talað fyrir því að þessi lög, lögin sem reyndi á í dómnum, yrðu endurskoðuð, það þyrfti að endurskoða þau vegna þess að uppi væru álitamál og að þau hefðu beinlínis leitt til þess að menn hefðu þurft að höfða mál til að tryggja rétt sinn. Á þetta hefur ekki verið hlustað. (Utanrrh.: … ekki lagt fram tillögu um það.) Við höfum lagt fram tillögu um það og við höfum líka lagt fram tillögu um það, margítrekað og því hefur ítrekað verið hafnað af stjórnarmeirihlutanum, að mál sem snertu uppgjör vegna lánssamninga fengju flýtimeðferð í dómskerfinu. Því var líka hafnað og sagt að það væri óþarfi. Nú sitja menn uppi með óvissuna af því hvernig eigi að túlka málið. Við fengum núna langan fyrirlestur frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um hvernig dómurinn hefði fallið í gær og hversu mörg álitamál væru uppi og hvert fordæmisgildið væri o.s.frv. Við stöndum sem sagt frammi fyrir því núna, þremur árum eftir að þessi ríkisstjórn tók við, að fjöldi mála sem varða skuldauppgjör við heimilin er í óvissu. Það er staðan. Það er niðurstaðan af tilraunum ríkisstjórnarinnar til að höggva á hnútinn í þessum málum. Þess vegna er þetta alvarlegt mál. Menn geta ekki skotið sér undan því að horfast í augu við það að með lögunum sem ekki stóðust í Hæstarétti í gær, þau stóðust ekki, mistókst tilraun til að leysa úr svona málum.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra segir hér að aldrei hafi staðið til að taka betri rétt af lántakendum. Ef menn lesa hins vegar greinargerðina með frumvarpinu sem lagt var fram á sínum tíma sér maður ítrekaða tilraun til að réttlæta það inngrip sem lögin fólu í sér. Í henni er til dæmis farið yfir það að löggjafinn hafi bærni til að ákveða fyrirkomulag þessara hluta aftur í tímann. Raktir eru dómar bæði frá Noregi og frá Íslandi um að í fortíðinni hafi menn talið það standast að grípa inn í hlutina afturvirkt. Til hvers er þetta rakið? Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Þá var í dómi Hæstaréttar í máli 5/1953 […] staðfest sú niðurstaða bæjarþings Reykjavíkur að afturvirk lagasetning væri réttlætanleg þar sem lögin væru þáttur í margþættri tilraun til að lagfæra fjárhagskerfi þjóðarinnar og koma því í fastari skorður.“

Þetta var nefnt sérstaklega til réttlætingar á því að það væri hægt að grípa inn í og láta lög gilda afturvirkt. Svo segir á öðrum stað í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Þá er hætt við því að réttlætiskennd almennings verði misboðið og greiðsluvilji einstaklinga þverri ef fjárhagsleg staða heimila verður látin ráðast að stórum hluta af tilviljunarkenndu orðalagi í samningum sem einstaklingar höfðu ekki forsendur til þess að meta á sjálfstæðan hátt. Því er hætt við að það ójafnræði sem myndast þegar einn aðili fær gengistryggingu dæmda ólöglega en annar stendur uppi með lögmætan lánssamning dragi úr greiðsluvilja þeirra síðarnefndu. Af þeim sökum er sanngjarnt sem og mikilvægt fyrir fjármálastöðugleika að jafnræðis sé gætt í meðferð sams konar og eðlislíkra neytendalána.“

Hvað er verið að segja hér? Það er verið að segja að jafnvel þótt einhver eigi betri rétt sé það ósanngjarnt og það geti dregið úr greiðsluvilja hinna að leyfa honum að njóta þess. Það er beinlínis sagt í greinargerðinni. Mér finnst menn skauta býsna hratt fram hjá þeim rökstuðningi sem notaður var á sínum tíma þegar menn segja nú að meiningin hafi á engan hátt verið að taka af fólki betri rétt. Og hvað segir dómur Hæstaréttar okkur? Hann segir okkur að þá eru til einstaklingar sem töldu sig eiga betri rétt en reynt var að tryggja þeim með lögunum sem sett voru haustið 2010, og Hæstiréttur hefur staðfest að svo sé. Í hverju liggur þessi betri réttur? Hann liggur í ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það er alvarlegt mál að menn skyldu hafa sett lög sem ekki standast stjórnarskrána um þetta atriði. Ég er ekki með þessu að segja að lögin í heild sinni séu andstæð stjórnarskránni en þau standast hana ekki um þetta atriði. Mér finnst að menn eigi að vera menn til að viðurkenna að tilraunin hafi mistekist. Stjórnarandstaðan varaði við því á sínum tíma að flýta sér eins og gert var. Málið var keyrt í gegnum þingið í miklu hraði og við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sátum hjá, m.a. vegna þess að við töldum þetta álitamál ekki leitt til lykta. Við vildum ekki standa gegn málinu vegna þess að það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, eitt og annað var vissulega til bóta í lögunum. Það var mikilvægt að afgreiða þetta mál, vissulega, en menn flýttu sér um of.

Ég vil líka vara við því að málið sé nálgast þannig í umræðunni að einhver sé að tapa af rétti sínum með því að þessi mál endi svona. Menn eiga einfaldlega rétt á því að njóta lagalegrar stöðu sinnar. Með því er ekki tekið neitt frá öðrum. Stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir núna þegar við metum áhrif dómsins á fjármálakerfið og getu þess til að fást við þetta, er í raun og veru þessi:

Voru gerð hrapalleg mistök þegar fjármálakerfinu nýja var komið á fót? Voru þessi lánasöfn stórlega ofmetin? Hversu mjög voru þau ofmetin? Hversu mjög voru verðtryggðu lánin líka ofmetin? Hvers vegna tölum við um tjón og högg fyrir nýja bankakerfið? Það eru ekki nema nokkur missiri síðan við lögðum allar þessar eignir inn í nýja bankakerfið og slógum á þær verðmæti og fengum sérfræðinga til að meta það með okkur. Hvers vegna var ekki hlustað eftir ábendingum um að í þessu lánasafni kynnu að vera ólögmæt lán sem væru ekki jafnmikils virði og út frá væri gengið? Hvers vegna stöndum við frammi fyrir því núna (Gripið fram í.) að slá mati á það upp á tugi milljarða hversu mikið tjón, eins og menn kalla það, þetta er fyrir nýja fjármálakerfið, hversu mikið högg þetta er fyrir nýja fjármálakerfið? Það getur eiginlega bara verið ein skýring á því og hún er sú að menn hafi gert þau stóru mistök þegar nýja bankakerfinu var komið á fót að meta þessar eignir langt umfram raunverulegt verðmæti og hlusta ekki á ábendingar um að þarna gæti verið um ólögmæt lán að ræða, jafnvel þótt (Forseti hringir.) mál hefðu verið höfðuð á þeim tíma.