140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:05]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við erum að fást við afleiðingar sjúklegrar meðvirkni meiri hluta Alþingis og ríkisstjórnarinnar við bankakerfið, bankakerfi sem tjaslað hefur verið saman algerlega á forsendum kröfuhafanna og á kostnað almennings og á kostnað skuldsettra heimila.

Þann 18. desember 2010 voru hrein ólög keyrð í gegnum þingið, lög sem pöntuð voru af Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu sem sent höfðu frá sér tilmæli til fjármálafyrirtækja um hvernig reikna ætti lánin, tilmæli sem umboðsmaður Alþingis gerði þau reyndar afturreka með. Lögfræðingar fjármálafyrirtækja höfðu einnig kallað eftir lögum sem þessum í dómsal. Við þingmenn getum ekki vitað allt. Þess vegna leitum við álits sérfræðinga hjá fagaðilum, hagsmunaöflum og almenningi. Öllum er heimilt að senda okkur álit sitt og við vorum vöruð við. Okkur bárust fjölmargar umsagnir, nær allar neikvæðar.

Ég prentaði út að gamni mínu í morgun nokkrar þeirra sem ég mundi eftir. Hér segir til dæmis umboðsmaður skuldara, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það leiða til þess að nokkur fjöldi neytenda og annarra skuldara mun þurfa að inna af hendi viðbótargreiðslur til lánveitenda sinna.“

Það telur umboðsmaður skuldara ekki ásættanlegt. Síðar í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Í almennum athugasemdum við frumvarpið er nokkuð fjallað um samspil eignarréttar og réttarins til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í því sambandi er ástæða til að benda á að komi til þess að einstaklingar verði í kjölfar endurútreiknings knúnir til að greiða hærri fjárhæðir en þeim var skylt samkvæmt samningi, felur það einnig í sér skerðingu eignarréttar. Um þetta er ekki fjallað sem skyldi í athugasemdum með frumvarpinu. Leiða má að því líkur að í því felist ólögmæt eignaupptaka, en ekki hefur verið sýnt fram á að almannahagsmunir krefjist þess að slík eignaupptaka fari fram. Því er hugsanlegt að höfuðstólshækkanir eða bakreikningar til einstaklinga feli í sér bótaskyld brot, ekki einungis gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, heldur einnig gegn skuldbindingum íslenska ríkisins að þjóðarétti.“

Það sagði umboðsmaður skuldara, sem er embætti sem við komum á fót. Sá maður sem vann málið fyrir dómi í gær sendi okkur líka ábendingu. Hann sendi öllum þingmönnum bréf. Í umsögn sinni segir hann:

„Ef frumvarpið fengi samþykki Alþingis í óbreyttri mynd væri auk þess verulega raskað grundvelli og nokkrum mikilvægum forsendum í þeim málum sem dómstólar hafa nú til meðferðar (þar á meðal mál undirritaðs), sem varða gengistryggð húsnæðislán. Þannig veikir frumvarpið réttarstöðu neytenda í málaferlum gegn kröfuhöfum og fjármálastofnunum þvert á yfirlýst markmið þess sem er m.a. að tryggja sanngirni og réttlæti.“

Við vorum vöruð við og af mun fleirum en þessum.

Lögfræðingur ASÍ, Magnús M. Norðdahl, sem situr nú á Alþingi fyrir hönd Samfylkingarinnar, varar líka við þessari lagasetningu í umsögn Alþýðusambandsins og í bréfi til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í kjölfar fyrsta gengislánadómsins sem féll 16. júní 2010. Mér er skapi næst að spandera einu „háttvirtur“ á hann.

Allir hljóta að sjá að sú leið sem ríkisstjórnin hefur farið í skuldamálum heimilanna hefur nú þegar beðið algert skipbrot. Nú þarf að snúa við blaðinu. Nú þarf að finna réttlætið, ekki bara fyrir þá sem voru með gengistryggð lán heldur öll skuldsett heimili og fyrirtæki. Við eigum að snúa bökum saman, ekki etja fólki hvert upp gegn öðru. (BirgJ: Heyr, heyr.)

Áðan sagði nýi efnahags- og viðskiptaráðherrann okkur að fjármálakerfið væri vel fjármagnað og þar væri mikið svigrúm til þessara leiðréttinga. Það er gott að heyra að ráðherrann sé loksins orðinn sammála okkur sem höfum haldið því fram. Hann hefur ekki verið það hingað til.

Forseti. Við verðum að fara í almennar leiðréttingar. Það verður ekki gert með afturvirkri lagasetningu, það er alveg ljóst. Hreyfingin hefur lagt til færa leið í þessum efnum við oddvita ríkisstjórnarflokkanna og það hafa fleiri gert, svo sem Hagsmunasamtök heimilanna, Ólafur Margeirsson, Gunnar Tómasson og fleiri, já og Framsóknarflokkurinn, við skulum ekki gleyma honum. (BJJ: Rétt.) Nú þarf að fara í almennar aðgerðir. Ef við leiðréttum ekki þessi lán, ef við ætlum að hafa þetta svona getum við ekki sagt að við búum í réttlátu samfélagi. Ætlum við að hafa þetta svona? Það er í okkar valdi. Það er í okkar valdi að breyta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (BirgJ: Heyr, heyr.)