140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að rifja upp hvað fór í gegnum kollinn minn þegar greidd voru atkvæði um lögin 18. desember 2010, þá vorum við að ákveða hvert vaxtastigið skyldi vera á gengisbundnum lánum. Ég sjálfur er einn af þeim sem tók þá upplýstu ákvörðun 2007, á því herrans ári, að setja öll lán heimilisins í erlenda mynt. Mér var uppálagt væntanlega hér í þingsal að taka ákvörðun en engin önnur ákvörðun hefur haft jafnmikla beina þýðingu fyrir heimilisrekstur minn og hún þannig að ég ákvað að vera fjarverandi við atkvæðagreiðsluna. Mér fannst athyglisvert að í allri umræðunni um hagsmunatengsl og annað fór enginn fjölmiðill yfir það hverjir ættu hagsmuna að gæta þar.

Ég veit ekki alveg hvernig stjórnmálamaður ég ætti að vera ef ég hefði gengið mjög hart fram í þeirri umræðu og krafist þess samkvæmt hugmyndum manna um besta rétt að samningsvextir ættu að gilda á þessum lánum. Ég veit ekki hvers lags eiginhagsmunaseggur ég ætti að vera til að hafa gert það, en ég hafði þá og hef enn djúpan skilning á þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram á því að dómstólar skyldu skera úr því erfiða úrlausnarefni, sem vissulega voru tvær hliðar á, ef ekki fleiri, og ég var sammála því. Nú hafa þeir sem sagt komið með þennan úrskurð og Hæstiréttur skiptist. Í ljósi alls þessa, hversu erfitt þetta mál er, skil ég mjög vel að ákveðið hafi verið að reyna að fara einhverja skynsamlega leið í lagasetningunni, gæta jafnræðis og jafnvel leita álits siðfræðinga, vegna þess að þetta er líka siðferðislegt spursmál, og láta síðan dómstóla um að ákveða hvort einhver betri réttur sé fyrir hendi.

Svo vil ég fjalla aðeins um málið út frá pólitísku samhengi. Maður getur verið í tvennum buxum í þessu. Ég get annars vegar verið eiginhagsmunaseggur og sett Steinda á fóninn þegar ég kem heim, sett gullkeðju um hálsinn og „dsjing, dsjing“ og fagnað og farið síðan hlæjandi alla leið í bankann ef mér verða skyndilega dæmdir samningsvextir í gegnum allt hruntímabilið þar sem voru yfir 20% óverðtryggðir vextir, þá er það einhvern veginn „þetta reddast“, 2007-hugarfarið, sem kemur mér þá til góða. Gott og vel. Hins vegar þurfum við líka að vera í pólitísku buxunum og ég geri kröfu til þessarar samkomu að við séum það.

Talað er um svigrúmið sem er í bankakerfinu. Mér hefur það lengi verið ljóst að svo sé og ég skil ekki af hverju það kemur mönnum ægilega á óvart að það sé fyrir hendi. Skrifaðar hafa verið margar greinar um það undanfarið að eiginfjárhlutfall bankanna er mun hærra en 16% eiginfjárhlutfallið sem Fjármálaeftirlitið fer fram á. Það þýðir að það eru einir 170 milljarðar í bankakerfinu umfram eiginfjárhlutfallið sem Fjármálaeftirlitið fer fram á og við eigum öll að vita að af því fé eru að minnsta kosti 40% í eigu ríkisins. Eftir að bankakerfið var endurreist eignaðist ríkisvaldið, ríkiskassinn, 40% af því þannig að ríkið á um 70 milljarða þar. Ríkið getur í rauninni farið inn í bankakerfið á morgun og sótt þessa 70 milljarða og jafnvel meira til (Forseti hringir.) vegna þess að afgangurinn yrði skattlagður. Það eru 70–100 milljarðar. Við skulum taka þá umræðu hér hvernig við nýtum þá peninga? Við skulum fara í það hispurslaust. Er þeim best varið í að fullnægja þessum dómi? (Forseti hringir.) Er þeim best varið í almennar skuldaleiðréttingar sem verða hugsanlega étnar upp af verðbólgunni? Þá umræðu þurfum við að taka.