140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Dómur Hæstaréttar í gær er fagnaðarefni vegna þess að hann léttir umtalsverðum skuldum bæði af fólki og fyrirtækjum í landinu. Hann er líka fagnaðarefni vegna þess að það hefur skort á það í skuldauppgjörinu að meginreglur séu hafðar í heiðri og menn njóti ráðdeildarsemi, skilvísi og annarra slíkra eiginleika. Það er fagnaðarefni í því að Hæstiréttur festir það að greiði menn sínar afborganir og fái fyrir því kvittun að þeir hafi gert það eigi þeir rétt, þ.e. það borgar sig að standa í skilum. (LMós: Þarftu ekki að hafa efni á því?) Ég held að það séu mjög mikilvæg skilaboð í samfélaginu um alla framtíð.

Hversu langt á hins vegar að túlka þetta fordæmi? Það er enn óvíst og við eigum eftir að þurfa að fjalla um ýmis álitaefni í því í framhaldinu. Dómur Hæstaréttar er fagnaðarefni en að honum gengnum skapast það vandamál að veruleg mismunun er milli þeirra sem tóku erlend lán annars vegar og hinna sem tóku verðtryggð íslensk lán. Það er meiri vandi en við er hægt að búa. Dómur Hæstaréttar er fagnaðarefni en í framhaldinu er óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða til að koma til móts við það fólk sem keypti íbúðarhúsnæði á árabilinu 2004–2008 með verðtryggðum íslenskum lánum. Stór hópur í samfélaginu hefur þurft að þola þrennt í senn, að kaupa þegar fasteignaverð var í algjöru hámarki, að fá á sig gríðarlegt verðbólguskot rétt eftir kaupin um leið og það hefur þurft að taka á sig verulegar launalækkanir. Það er ekki hægt að ætla þeim hóp að ráða við öll þau þrjú áföll í senn og það er ekki hægt að skilja hann eftir þegar aðrir lántakendur í samfélaginu hafa þó fengið þær ívilnanir sem fylgja þessum dómi.

Hvað getur Alþingi lært af dómnum? Ég held að Alþingi geti lært það að í verulegum lögfræðilegum álitaefnum um gildandi samninga getur Alþingi ekki eytt óvissu. Það voru forsendurnar fyrir því að grípa inn í málið með lögum á sínum tíma, að eyða óvissu, og í ýmsum atriðum tókst það. Það er sannarlega þakkarvert. Það tókst að tryggja fjölmörgum ákveðin réttindi og tiltekna meðferð. Það að eyða óvissunni um það hvort reikna mætti vextina aftur í tímann gat Alþingi aldrei gert. Það getur enginn gert nema Hæstiréttur. Það lá alveg fyrir að á það yrði látið reyna og endanleg niðurstaða í því yrði aldrei fengin fyrr en Hæstiréttur hefði fellt sinn dóm. Ég held þess vegna að Alþingi eigi að hugsa sig mjög vel um áður en það ákveður að fara aftur inn í þessi mál með lagasetningu og spyrja sig hvort staðan sé ekki einfaldlega sú að sú ákvörðun Hæstaréttar á sínum tíma að dæma ólögleg erlend lán og allar þær fjölmörgu spurningar sem af því vöknuðu séu einfaldlega með þeim hætti að þau mál þurfi hvort eð er að leiða til lykta fyrir dómstólum og að löggjafinn eigi ekki að grípa frekar inn í það með reglusetningu. Ég held að full ástæða sé til að gæta verulegra varúðarsjónarmiða um það að fara inn í þessi mál aftur með löggjöf.

Í þriðja lagi er ákaflega mikilvægt að undirstrika það að þó að hér sé um að ræða verulegt högg fyrir fjármálakerfið, eins og kallað er, svo nemur tugum milljarða samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum frá Fjármálaeftirlitinu á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær ræður fjármálakerfið, stóru viðskiptabankarnir þrír, við það högg. Þetta hefur verið skoðað ítrekað. Vissulega voru bankarnir búnir með það sem kallað var svigrúm. Það var afslátturinn sem þeir fengu á lánasöfnunum frá kröfuhöfunum en þeir búa að gríðarlega miklu eigin fé og þeim hefur verið bannað að greiða út arð. Uppsafnaður hagnaður er inni í þeim sem gerir það að verkum að þeir geta mætt þessum áföllum. (GBS: Og þar af leiðandi leiðrétt lánin.) En hjá þingmönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem sátu hjá við afgreiðslu þessa máls, líkt og ég, en greiddu ekki atkvæði gegn því (Forseti hringir.) finnst mér býsna ódýrt að ráðast hér að þeim sem stóðu með málefnalegum hætti að þessari löggjöf til að tryggja þeim sem hægt var (Forseti hringir.) að tryggja tiltekin réttindi vegna þess að sannarlega var úr vöndu að ráða um þessi álitaefni. Hæstiréttur Íslands klofnaði 4:3. Sannarlega hefði verið ábyrgðarlaust (Forseti hringir.) að ganga svo langt í málinu að hætta hefði verið á tugmilljarða skaðabótamáli gegn íslenska ríkinu. (GBS: Klúður.) Það hefði verið klúður, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson.