140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:58]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Með lögum skal land byggja og ólögum eyða. Það er oft sem ég vildi óska þess að lög landsins væru afturvirk. Mikil umræða hefur orðið um það hve óréttlátt það er að þeir sem bera höfuðábyrgð á hruninu í stjórnmálalegum skilningi ganga lausir, ritstýra virðulegum dagblöðum og fá feita stöðu fyrir hönd ríkisins á erlendri grund. Því var óréttlætið í tengslum við gengistryggðu lánin enn skýrara í huga mér. Þarna var gefið enn eitt skotleyfið á neytendur í þágu fjármálafyrirtækjanna. Þannig á Alþingi ekki að forgangsraða og við vorum hvorki kosin á þing til að vinna stjórnarskrárbrotum brautargengi né láta reyna á hvort það væri gerlegt í löglegu en siðlausu umhverfi gráa svæðisins. Ef vafi leikur á því að við þingmenn séum að fara inn á svæði sem er af einhverju tagi siðlaust, þó að lögfræðisnillingum gráa svæðisins hafi tekist að sannfæra grunlausa ráðherra um að landsins besta gagn sé að slá skjaldborg um fjármálafyrirtækin, ber okkur skylda til að gera allt til að sporna við því að slík ólög verði að lögum. Því miður skorti tíma og getu þegar ólög þau sem við fjöllum um núna voru borin inn á þing með miklu hraði.

Öryggisventilinn sem við þingmenn gjarnan beitum er að finna á nefndasviði, í nefndastarfi okkar. Þar fáum við umsagnir frá sérfræðingum og hagsmunaaðilum. Þegar þetta frumvarp var til umfjöllunar kom fjöldinn allur af umsögnum, þar á meðal ítarleg umsögn frá Sigurði Hr. Sigurðssyni, þeim hinum sama og vann málið fyrir Hæstarétti í gær. Þar bendir hann þingmönnum á ýmislegt sem varðar óréttlætið í þessum lögum og hefðu þingmenn betur hlustað á rök og varnaðarorð hans en að ana áfram í enn einni blindu atkvæðagreiðslunni án þess að gera sér almennilega grein fyrir því hvað það þýðir að sitja hjá eða ýta á græna takkann. Í umsögn Sigurðar stendur meðal annars í lokaniðurstöðum, með leyfi forseta:

„Þó svo að yfirlýstur ásetningur með þessu frumvarpi sé af hinu góða óttast undirritaður að verið sé að gera neytendum með gengistryggð lán mikinn bjarnargreiða með ósanngjörnum ákvæðum þess. Í nafni jafnræðis og sanngirni er verulega verið að þyngja vaxtabyrði af lánum þessum afturvirkt og setja nýja óhagstæða skilmála í stað þeirra sem fyrir eru. Þetta brýtur í bága við neytendavernd EES-réttar sem er í fullu gildi á Íslandi.“

Ég lít svo á, forseti, að dagar ríkisstjórnarinnar séu taldir ef þau vinda sér ekki strax í að jafna stöðu almennings. Nú er kjörið tækifæri að læra af mistökunum og sýna að við völd séu boðberar jöfnuðar en ekki ójöfnuðar. Þingheimur á að setja afnám verðtryggingar í algeran forgang og nýta sér alla þá viðamiklu vinnu sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt í að koma með lausnir á þessum mikla vanda sem tugir þúsunda heimila standa frammi fyrir út af sértækum aðgerðum núverandi valdhafa. Það eru til lausnir sem munu leiða til réttlætis. Þessar lausnir verða betri ef gjörvallur þingheimur leggst saman á árarnar við að vinna að þeim í stað þess að rífast um hver situr hægra eða vinstra megin í bátnum eða í miðjunni.

Mér finnst líka mikilvægt að halda því til haga, forseti, að embættismaðurinn sem skrifaði lögin sem við fjöllum um vinnur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. Nú er lag að aftengja samþættingu þingheims og viðskiptaheims. Við í Hreyfingunni höfum barist fyrir því að aftenging milli viðskiptaheims og þingheims verði að veruleika, m.a. með alvöruupplýsingalöggjöf. Það ætti að vera grundvallarskilyrði að almenningi og þingheimi sé gerð grein fyrir því hver skrifar hvaða lagabálk sem okkur er afhentur hér frá viðskiptaheimi sem hefur verið skrifaður í ráðuneytunum. Það er ekki síður mikilvægt að hagsmunaaðilar almennings komi með sama hætti að lagasetningu ef það er álit valdhafa að það sé nauðsynlegt að nýta sér sérþekkingu aðila (Forseti hringir.) sem vinna við þetta og viðskiptaheims við lagasetningu.

Að lokum skora ég á þingheim sem og almenning allan að fara ekki í að rífast um hvaða lántakendur hafa það betra eða verra heldur (Forseti hringir.) stíga þetta mikilvæga réttindaskref og nýta það sem tilefni og kraft til að taka hitt mikilvæga skrefið, sambærilegt réttlæti (Forseti hringir.) fyrir þá sem hafa verðtryggð lán. Sameinuð stöndum við, sundruð föllum við. (Forseti hringir.) Látum ekki sundra okkur enn og aftur heldur sýnum einlægan vilja til samvinnu.