140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[13:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég greiddi því atkvæði eins og allir aðrir þingmenn í þingsal haustið 2010 og var samþykk þeirri ályktun Alþingis að fara ætti í rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna og í framhaldi af því yrði settar fram tillögur um hvernig lífeyrissjóðakerfið ætti að starfa til framtíðar. Nú man ég ekki nákvæmlega hvernig tillagan var orðuð, en ég var sammála því að það þyrfti að gera.

Ég var einnig sammála því að bíða eftir þessari rannsókn áður en Alþingi færi fram með skilgreiningu á rannsókn sinni.

Ég hef lesið bæði skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrsluna sem við fjöllum um í dag og þar eru saman komnar ansi verðmætar upplýsingar sem fleyta okkur vel áfram. Ég mundi vilja skilgreina þá rannsókn — telji stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga til að ná fram markmiðinu sem Alþingi setti sér þegar það samþykkti þessa þingsályktunartillögu á sínum tíma, þá þarf að skilgreina þá rannsókn í samræmi við þær upplýsingar sem fram komu í þessari skýrslu sem eru margar hverjar mjög verðmætar.

Varðandi hina spurninguna sem hv. þingmaður kom fram með hvort kjósa ætti sjóðfélaga í stjórnir, finnst mér það ágætishugmynd, ekki vegna þess að það mundi tryggja frekari eða betri ávöxtun á sjóðnum, heldur mundi það tryggja samtal á milli (Forseti hringir.) aðila.