140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort undanfarin ár hafi fulltrúar fjármálaráðherra í stjórnum lífeyrissjóðanna greitt atkvæði gegn því að iðgjald yrði hækkað og bendir á að samkvæmt lögum ætti að mæta skuldbindingum sjóðsins með slíkri hækkun. Ég get ekki svarað fyrir aðra en sjálfa mig, en ég get þó upplýst að ég hef heyrt að svo sé. Sennilega þekkir hv. þingmaður það betur en ég, líklega er þetta rétt hjá honum.

Eins og ég sagði frá í ræðu minni áðan er að störfum sérstakur hópur sem fjallar um stöðu opinberu lífeyrissjóðanna og ræðir þar aðgerðir um hvernig mæta skuli skuldbindingum til lengri tíma. Þar hefur verið rætt um að hækka iðgjaldið eins og lögin segja til um, en það hefur líka verið rætt um aðrar leiðir sem lúta að því að mæta almenna lífeyrissjóðakerfinu þar sem markmiðið er að jafna réttindin þannig að það skipti ekki máli í hvaða lífeyrissjóð menn greiða. Opinberir starfsmenn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, þegar þeir skipta yfir á almennan vinnumarkað, að tapa lífeyrisréttindum sínum. Sú vinna er í gangi til að reyna að finna leiðir til að jafna réttindi hvað þetta varðar.

Ég hef aðeins meiri tíma af því það voru fleiri spurningar sem hv. þingmaður nefndi. Hann talaði um það sem ég nefndi í ræðu minni, að taphlutfallið hefði verið 22% sem væri svipað og í erlendum lífeyrissjóðum. Það er auðvitað alveg rétt að það skiptir máli í hvaða (Forseti hringir.) mynt þú reiknar tapið, en ef þú horfir eingöngu á það út frá myntinni sem er í hverju landi fyrir sig er þetta hlutfall tapsins, hlutfall af (Forseti hringir.) eigunum.