140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Förum aftur yfir spurningarnar.

Það kom nokkuð þokkalegt svar, mundi ég segja, við fyrstu spurningu minni. Það er greinilegt að hv. þingmaður telur að við þurfum að endurskoða þau ákvæði sem varða verðtryggingu lífeyris og raunar líka þær kröfur sem eru gerðar varðandi tryggingafræðilega stöðu sjóðanna og það sem er síðan undirliggjandi afleitt af lögum Alþingis, sem er reglugerð fjármálaráðherra um 3,5% raunávöxtunarkröfu sem er gerð á sjóðina. Ég fagna því að heyra að hv. þm. Bjarni Benediktsson er orðinn sammála því að nauðsynlegt sé að endurskoða ávöxtunarkröfu sjóðanna og líka þá kröfu sem er sett almennt á lífeyrissjóðina um það sem lofað er í lögunum, þ.e. verðtryggðum lífeyri.

Varðandi aðra spurninguna ætla ég aðeins að hjálpa þingmanninum og segja honum að svarið er B, xB. Raunávöxtunin varð fyrst jákvæð þegar vaxtafrelsi var komið hér á en ekki þegar verðtryggingu var komið á með Ólafslögunum, sem sagt almennri verðtryggingu, árið 1979. Þetta hefur alltaf snúist um vexti og menn fóru þessa hringleið með verðtrygginguna vegna þess að þeir höfðu á þeim tíma töluverðar áhyggjur af því hvaða áhrif það mundi hafa að gefa vexti frjálsa. Það var jafnvel talað um að vaxtaákvarðanir þyrftu að hætta að vera pólitískar og var þá gripið til verðtryggingarinnar.

Það sem hefur hins vegar gerst að mínu mati og við höfum neitað að horfast í augu við er að verðtryggingin er ekki eins og hún átti að vera, þ.e. krafa um ákveðið verðgildi krónunnar, heldur varð hún krafa um ávöxtun. Í grunninn snerist málið alltaf um vextina og við erum með frjálsa vexti á Íslandi.

Ég verð síðan að segja varðandi þriðju spurninguna að það er hálfleitt að heyra að (Forseti hringir.) formaður Sjálfstæðisflokksins tekur ekki undir ályktun landsfundar um að færa beri niður höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána, (Forseti hringir.) sérstaklega í ljósi þess, að minnsta kosti miðað við sjónvarpsútsendingar, að þetta var mikið hitamál og sjálfstæðismönnum var mjög annt um að (Forseti hringir.) farið yrði í slíka leiðréttingu.