140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:39]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú aðra skýrslu hér í dag. Sú fyrri var munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra um hæstaréttardóm sem féll í gær en þessi er munnleg skýrsla fjármálaráðherra um lífeyrissjóðina. Þessar skýrslur eru báðar af sama meiði sprottnar, þ.e. ræturnar liggja aftur í bankahrunið sem varð hér 2008. Við stóðum þá frammi fyrir bankahruni, gengishruni og svo miklar skuldbindingar féllu á ríkissjóð að það lá við þjóðargjaldþroti.

Hæstv. forseti. Ástæða umræðunnar í dag er nýleg skýrsla sem lífeyrissjóðirnir sjálfir höfðu frumkvæði að og nefnist Úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008. Skýrslan er að mínum dómi vel unnin, viðamikil og gefur glögga mynd af umsvifum lífeyrissjóðanna fram að bankahruni. Ég skal viðurkenna það að ég hef ekki þaullesið þau fjögur bindi sem skýrslan tekur yfir en ég hef farið yfir helstu atriði og á örugglega eftir að gera það betur því að ég tel að sú úttekt sem lífeyrissjóðirnir stóðu fyrir sé eingöngu upphaf að vinnu og umræðu um framtíð lífeyrissjóðanna sem við á þingi, í ríkisstjórn og úti í samfélaginu þurfum að halda áfram með.

Í skýrslunni eru færð rök fyrir því að heildartap lífeyrissjóðanna frá janúar 2008 til ársloka 2010 sé tilgreint tæpir 480 milljarðar kr. Þessi fjárhæð er talsvert hærri en sjóðirnir sjálfir hafa metið og rakið til efnahagshrunsins í október 2008 eða sem nemur allt að 95 milljörðum kr. Mismunurinn helgast af ólíkum viðmiðunartímabilum. Sé tímasetning tjónsins miðuð við fall bankanna verður heildartap sjóðanna 380 milljarðar. En það væri jafnframt hægt að fá enn hærri tölu ef farið væri lengra aftur en janúar 2008. Alveg sama hvaða viðmiðunarpunktur er tekinn er tap lífeyrissjóðanna ógnvænlegt. Sé miðað við útgangspunkt skýrslunnar er upphæðin hærri en sem nemur öllum fjárlögum ríkissjóðs árið 2012 að undanskildum vaxtakostnaði.

Í umræðu um tap lífeyrissjóðanna þarf að sjálfsögðu að hafa í huga að það var alveg ljóst að við fall bankakerfisins og fjöldagjaldþrot fyrirtækja mundu lífeyrissjóðirnir tapa miklum fjármunum þar sem þeir voru stórir fjárfestar í íslensku athafnalífi. Þessu er í raun ágætlega haldið til haga í skýrslunni enda nauðsynlegt því að umræðan verður að vera sanngjörn. Það breytir því þó ekki að ýmsu þarf að halda til haga eins og því að viðskiptagjörningar sem lífeyrissjóðirnir tóku þátt í skömmu fyrir hrun verða æ einkennilegri og er mönnum skylt að fara betur yfir þá.

Við lestur á skýrslunni blasir við að lífeyrissjóðirnir fylgdu ráðleggingum frá stóru bönkunum sjálfum og eignarhaldsfélögum á bak við þá allt of blint. Í mörgum tilfellum skorti á sjálfstæðari vinnubrögð hjá stjórnendum lífeyrissjóðanna. Það er einnig rétt að nefna að lífeyrissjóðirnir nutu góðs af verðtryggingu í gegnum það verðbólguskot sem varð hér við hrunið. Ef slíku hefði ekki verið til að dreifa hefði tapið verið miklu meira.

Ekki má gleyma að áratugauppbygging lífeyrissjóðakerfisins hefur skilað okkur afar burðugum stofnunum. Samkvæmt nýjustu úttekt Efnahags- og framfarastofnunarinnar, þ.e. OECD, er Ísland með eitt öflugasta lífeyrissjóðakerfi innan OECD og er þar í öðru sæti á eftir Hollandi. Það þýðir að við höfum lagt til hliðar til að eiga fyrir lífeyrisgreiðslum okkar og þrátt fyrir hrunið stendur þetta kerfi sterkt í alþjóðlegum samanburði. Þess má geta, hæstv. forseti, að þessi úttekt var gerð 2010 þannig að samanburðurinn er þá marktækur eftir hrun og eftir þetta mikla tap.

Ekki má gleyma því að stíga þarf varlega til jarðar þegar menn ræða um grundvallarbreytingar á þessu sjóðakerfi okkar. Þó er full ástæða til að skoða ákveðna grunnþætti í starfsemi sjóðanna. Mikilvægt er að endurvinna þeirra sé traust og að þeir endurskoði starfsemi sína sjálfir. Einnig þarf að skoða vel muninn á milli hins almenna lífeyrissjóðakerfis og hins opinbera, en eins og fram kom í máli hæstv. fjármálaráðherra er nefnd að störfum á vegum fjármálaráðuneytisins að vinna að þessum málum.

Einnig þurfa lífeyrissjóðirnir sjálfir að velta því gaumgæfilega fyrir sér hvort núverandi fyrirkomulag við val á stjórnarmönnum sé hið eina og sanna. Í skýrslunni er því meðal annars velt upp hvort rétt sé að óháðir stjórnarmenn séu valdir í stjórnir sjóðanna.

Loks þarf að skoða rækilega forsendur á bak við ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna en ýmsir málsmetandi aðilar hafa talið að 3,5% raunávöxtun til framtíðar sé of mikil bjartsýni þó svo að hún hafi gengið undanfarna áratugi. Þetta atriði er gríðarlega mikilvægt og þarfnast rækilegrar athugunar í ljósi breyttra aðstæðna á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Fyrirspurn um þessi mál liggur fyrir þinginu og ég vona að svar berist mjög fljótlega þannig að hægt sé að fara yfir málið og að það verði þá innlegg í frekari skoðun á því hvort þessi raunávöxtun sé raunhæf eða ekki.

Hæstv. forseti. Þegar við stóðum frammi fyrir svo miklu og víðfeðmu efnahagshruni sem hér varð lömuðust menn í byrjun. Ég get að minnsta kosti talað út frá eigin brjósti. Það var erfitt að gera sér grein fyrir því hvað þetta þýddi, það þurfti nokkurn tíma til að átta sig á því hvað hafði eiginlega gerst og hvernig þetta mátti vera. En umfang hrunsins held ég að sé fæstum ljóst enn þann dag í dag. Þó var það ljós í myrkri að við gátum komist hjá þjóðargjaldþroti og lentum ekki í sömu stöðu og Grikkir standa frammi fyrir í dag. En við horfðum líka til lífeyrissjóðanna og þökkuðum fyrir að við hefðum byggt þá upp jafntrausta og raun ber vitni.

Vissulega eru lífeyrissjóðirnir ólíkir. Það eru hinir opinberu lífeyrissjóðir og tvær deildir þeirra, A- og B-deild, sem eru mistryggar og -traustar fyrir iðgjaldagreiðendur. Svo eru það hinir almennu lífeyrissjóðir sem verða að standa á eigin fótum, sjálfbærir, þ.e. að standa undir þeirri ábyrgð að geta greitt sjóðfélögum sínum út samkvæmt þeirri ávöxtun sem þeir hafa og fjárfestingum, ef ekki munu réttindi lífeyrisþeganna lækka eins og er að gerast núna í Grikklandi þar sem þegar er ljóst að lífeyrisréttindi verða skorin mikið niður ásamt öllum launum í því landi, svo að við berum okkur saman við það.

Ég tel að með þeirri skýrslu sem lífeyrissjóðirnir létu sjálfir gera eigi okkur að vera betur ljóst hvað þeir eru okkur mikilvægir og þjóðfélagi okkar og hvað mikilvægt er að standa vörð um þá. Hvernig við gerum það svo til framtíðar tel ég að við þurfum að leggjast vel yfir. Það er heildarendurskoðun í gangi á kerfunum báðum, hinu opinbera og almenna. Það er verið að skoða mismununina á A- og B-deild lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna, hvernig draga megi úr þeim halla sem er að safnast upp í A-deild og hvernig megi laga eða rétta skuldastöðu B-deildarinnar til frambúðar. Þetta eru stór og mikil verkefni auk þess sem Alþingi hefur tekið ákvörðun um að fram fari sérstök rannsókn á starfi lífeyrissjóðanna á vegum Alþingis.

Ég tel að rétt hafi veriðað bíða eftir þeirri rannsókn sem lífeyrissjóðirnir vildu sjálfir standa fyrir áður en Alþingi réðist í þá rannsókn sem samþykkt hefur verið að fara í og ég vil þakka lífeyrissjóðunum fyrir frumkvæðið sem þeir sýndu í málinu. Eðlilega vildu þeir sjálfir glöggva sig á því hvernig þetta gat farið svona og hver staða sjóðanna væri og síðan hvernig mætti koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig.

Ég tel að Alþingi eigií ekki fara í tvöfalda rannsókn og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fari yfir þessa skýrslu og sjái hvað það er sem þurfi að bæta til að fá skýrari mynd af sjóðunum og láti rannsaka það svið. Ég tel mjög mikilvægt að þessari vinnu verði haldið áfram. Það er margt í störfum sjóðanna og framtíðarstarfsemi lífeyrissjóðanna sem þarf að fá meiri festu á, eins og fjárfestingarstefnan — hvernig á hún að vera, hversu áhættusöm má hún vera o.s.frv.?

Við sem þjóð, ásamt flestum öðrum norrænum þjóðum, stöndum frammi fyrir tvöföldum vanda. Það er hækkandi aldur og færri barnsfæðingar. Það eru því færri sem koma til með að standa undir velferðarþjónustunni í framtíðinni. Nú þegar er farið að ræða þennan tvöfalda vanda annars staðar á Norðurlöndum og hafa Svíar riðið á vaðið með því að brydda upp á umræðunni um hvort rétt sé að hækka eftirlaunaaldurinn, ekki upp í 70 ár heldur jafnvel upp í 75 ár, þannig að það séu fleiri úti í atvinnulífinu og greiði sín gjöld og það sé þá styttra tímabil sem lífeyrisþegar taka út úr sjóðunum. (Gripið fram í.)

Við Íslendingar höfum ekki fylgt þeirri þróun sem hefur verið í Evrópu hvað barnsfæðingar snertir en kannski förum við inn í þann fasa líka að hér muni í náinni framtíð fækka mjög barnsfæðingum. Það sýndi sig að vísu ekki í fyrra svo að það er aldrei að vita hvort það komi nokkurn tíma til þess að við þurfum að hafa sömu áhyggjur af fækkun barnsfæðinga hér og nágrannaþjóðirnar.

Hæstv. forseti. Mörg stór verkefni bíða okkar, ekki bara hvað varðar lífeyrissjóðina og að ná sátt um framtíðarskipan þeirra, heldur stöndum við frammi fyrir svo mörgu núna sem ég vona að við berum gæfu til að ná sátt um, eins og um verðandi lífeyrissjóðakerfi. Ef við viljum breyta núverandi kerfi, hvernig viljum við þá hafa það til framtíðar? Þetta er ein af mörgum stoðum samfélagsins sem hriktir í eftir hrunið og er langt í frá að við séum búin að vinna okkur út úr, hvort sem er á Alþingi eða úti í samfélaginu.