140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:30]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka aðilum vinnumarkaðarins fyrir það frumkvæði sem þeir tóku um mitt ár 2010 um að leggja það sameiginlega fyrir ársfund Landssambands lífeyrissjóða að láta fara fram sérstaka úttekt á málefnum lífeyrissjóðanna og samskiptum þeirra við fjármálafyrirtækin í aðdraganda hrunsins haustið 2008. Þar sameinuðust þeir um að fela ríkissáttasemjara, sem nýtur trausts þeirra og raunar einnig trausts stjórnvalda, að skipa nefnd þriggja óháðra, óvilhallra og hæfra einstaklinga til að annast það verk fyrir sig. Þessi nefnd fékk víðtækt umboð til starfa og nýtti sér það út í hörgul, enda þess óskað í greinargerð með tillögum aðila vinnumarkaðarins að vandað yrði til verka þannig að niðurstöður nefndarinnar yrðu hafnar yfir allan vafa. Ég tel að vel hafi tekist til.

Í niðurstöðum sínum bendir nefndin á margt sem betur hefði mátt fara, kemur með uppbyggilegar og góðar tillögur um hvernig koma megi í veg fyrir mistök í framtíðinni og síðast en ekki síst sparar hún hvorki gagnrýnina á stjórnir og stjórnendur lífeyrissjóðanna né gagnrýni á stjórnvöld og Alþingi og það fjármálakerfi sem byggt var upp í því sem mér liggur næst að kalla pólitíska skammtímasturlun. Hún bendir sérstaklega á að óvarlega hafi verið farið í fjárfestingar í tengdum fyrirtækjum og að almennt að skort hafi á formleg og sjálfstæð, skipuleg vinnubrögð við mat á einstökum fjárfestingum og áhættum sem þeim tengdust.

Lífeyrissjóðirnir fá einnig alvarlega gagnrýni fyrir að hafa fjárfest í skuldabréfum fyrirtækja sem geymdu svo veika skilmála að engar varnir fundust gegn því að eigendur fyrirtækjanna rændu þau innan frá með tilfærslu eigna sem um leið gerðu þessi sömu skuldabréf verðlítil eða verðlaus. Nefndin tekur þó ítrekað fram að stjórnendum lífeyrissjóðanna væri í þessu efni nokkur vorkunn enda er kunnara en frá þurfi að segja að stjórnvöld gengu sjálf fram fyrir skjöldu í aðdraganda hrunsins og árin þar á undan ásamt fagráðherrum í ríkisstjórn, Seðlabankanum, Fjármálaeftirliti og öðrum og fullvissuðu íslenskan almenning, íslenska og erlenda fjárfesta og erlend stjórnvöld um að hér væri allt í blóma og íslenskt efnahagslíf og bankakerfi væri traust. Allt þetta reyndist, ef ekki vísvitandi rangt, byggt á fölskum og villandi gögnum sem opinberar eftirlitsstofnanir og löggiltir endurskoðendur ásamt alþjóðlegum matsfyrirtækjum stimpluðu framan og aftan á sem traustar og trúverðugar upplýsingar. Lífeyrissjóðirnir gátu því ekki fremur en margir aðrir varið sig með öllu gagnvart því hruni sem á Íslandi varð haustið 2008.

Þó að nefndin telji samkvæmt framansögðu að margt hafi farið úrskeiðis, kemst hún að þeirri niðurstöðu að heildarskipulag lífeyrissjóðanna sé í flestu gott. Þá kemur fram að enginn sjáanlegur munur sé á því hvernig til hafi tekist í fjárfestingum lífeyrissjóðanna eftir því hvort fulltrúar verkalýðsfélaganna og atvinnurekendur kjósi stjórn eða hvort stjórnarmenn séu kjörnir beinni kosningu. Raunar er það svo að sá sjóður sem stýrt er af stjórn sem kjörin er beinni kosningu tapaði hlutfallslega mest.

Nefndin vekur einnig athygli á því að tíðar breytingar á fjárfestingarkafla laganna um lífeyrissjóði hafi sumar hverjar verið vanhugsaðar og leitt til of mikils svigrúms í túlkun sem aftur hafi leitt til þess að um of hafi verið fjárfest í hlutabréfum íslenskra fyrirtækja en tap vegna þeirra fjárfestinga myndar stærsta hlutann af því tapi sem sjóðirnir hafa þurft að taka á sig.

Í heild tel ég því að úttekt nefndarinnar sé bæði vel unnin og leiðbeinandi um það hvernig bregðast skuli við til að tryggja starfsemi lífeyrissjóðanna og það félagslega hlutverk sem þeir hafa til allrar framtíðar því að við megum ekki missa sjónar á því að þeir mynda eina mikilvægustu stoð þess velferðarkerfis sem við erum öll sammála um að skuli vera byggt upp hér á landi.

Eitt af því sem ég tel hvað mikilvægast í því efni er að bakhjarlar lífeyrissjóðanna eru aðilar vinnumarkaðarins því að bæði stofnun sjóðanna og starfsemi þeirra byggir í grunninn á kjarasamningum. Þessir aðilar hafa sameiginlega axlað þá samfélagslegu ábyrgð að verja langtímahlutverk og getu lífeyriskerfisins til að standa undir lífeyrisbyrðinni. Frumkvæði þeirra að þessari úttekt og nauðsynlegum breytingum ber að skoða í því ljósi og þess vegna er mikilvægt að allar breytingar sem gerðar verða og þarf að gera verði unnar í náinni samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og í gegnum kjarasamninga eftir því sem við á. Það yrði þá líkt og gert var bæði 1973 og 1995 þegar aðilar vinnumarkaðarins lögðu sjálfir grunninn að þeim fjárfestingarkafla sem enn er í lögum frá 1997, þó að Alþingi hafi gert dálítið óheppilegar breytingar. Ég heyri það á hv. þingmönnum sem hér hafa talað, sumum hverjum og að minnsta kosti formanni Sjálfstæðisflokksins, hann telur að skynsamlegt sé að gera nauðsynlegar breytingar í nánu og góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Ég trúi því, og hæstv. fjármálaráðherra fór líka yfir það áðan, að það verði viðhorf ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðherra enda er löng og góð hefð fyrir slíkum vinnubrögðum um málefni lífeyrissjóðanna.

Frú forseti. Þessi skýrsla verður ekki rædd án þess að fjalla um það gífurlega tap sem sjóðirnir urðu fyrir vegna einstakra fjárfestinga og þær tölur eru skelfilegar, á því er engin launung. Þó vil ég vekja athygli á því að afleiðingar tapsins á lífeyri launafólks eru þó ekki meiri en svo að sjóðfélagar hafa aflað sér lífeyris á grundvelli allra þeirra iðgjalda sem þeir greiddu til sjóðanna á tímabilinu 2006–2011 og gott betur. Þannig hefur hækkun lífeyris haldið í við og raunar verið meiri en hækkun launa og vísitölu á tímabilinu 2006–2011. Hvers vegna skyldi það vera þrátt fyrir 479 milljarða tap vegna einstakra fjárfestinga? Það skýrist af því, frú forseti, að í skýrslu þriggja manna nefndarinnar er alls ekki fjallað um heildarafkomu lífeyrissjóðanna heldur einungis um tap einstakra krafna og orsakir þess hvers vegna hver og ein tapaðist. Fyrir þessu gerir nefndin ágæta grein en ég sakna þess að hún hafi ekki samhliða gert grein fyrir heildarafkomu lífeyrissjóðanna með jafnafgerandi hætti.

Það vekur einnig sérstaka athygli mína að tap einstakra krafna er reiknað út frá bókfærðu verði og endurspeglar þannig alls ekki raunverulegt tap, eins og raunar kemur mjög skýrt fram í skýrslunni á bls. 27 en þar segir, með leyfi forseta:

„Úttektarnefndin telur sjálfsagt að benda á, að vegna færslu hlutabréfa til markaðsvirðis í ársreikningum segir reikningslegt tap ekki alla söguna því fjárfestingin geti í mörgum tilvikum hafa átt sér stað löngu fyrir árið 2007 og því geti raunverulegt tap verið mun lægra eins og lífeyrissjóðirnir hafa bent á. Sömuleiðis þarf að taka tillit til ávöxtunar frá fjárfestingartíma svo fjárfestingin sé metin réttilega.“

Þegar á allt þetta er litið er staðreyndin sú að þrátt fyrir að hér hafi allar banka- og lánastofnanir, að örfáum litlum sparisjóðum undanskildum, og þá undanskil ég ekki Seðlabankann, farið á hausinn, þá stóðust lífeyrissjóðirnir álagið og þeim tókst að verja ævisparnað launafólks á meðan annar sparnaður og eignir hafa brunnið misjafnlega hratt upp. Nettó bókfært tap sjóðanna, þ.e. neikvæð afkoma þeirra, nam ekki 479 milljörðum heldur 8,1 milljarði þegar tillit er tekið til þeirra tekna sem sjóðirnir höfðu af vöxtum og gengismun, eða 0,5% af hreinni eign til greiðslu lífeyris miðað við árslok 2007. Þrátt fyrir mikla hækkun lífeyris undanfarin ár sem tekin hefur verið til baka að nokkru með skerðingum eftir hrun, hefur lífeyrir sjóðfélaga hækkað til dagsins í dag um meira en sem nemur hækkun launa á sama tímabili. Skyldu einhverjar fjármálastofnanir á Vesturlöndum geta sýnt sama árangur? Því fer fjarri, frú forseti.

Með þessu er ég ekki að gera lítið úr tapinu og ég tel að skýrsla úttektarnefndarinnar bendi á ýmsa þætti sem gætu dregið úr slíkum áföllum. En ég bendi einfaldlega á að það verður að horfa á heildarmyndina um leið og tapið er gert upp og áætlanir gerðar um það til hvaða ráðstafana þurfi að grípa til að styrkja enn frekar hlutverk og tilvist þessarar mikilvægu stoðar í velferðarkerfi launafólks og landsmanna allra.

Frú forseti. Frá þessari skýrslu verður hins vegar ekki horfið án þess að taka til umræðu það hyldýpi sem er á milli almennu sjóðanna og þeirra opinberu. Meðan lífeyrisréttindi launafólks taka mið af greiddu iðgjaldi og afkomu almennu sjóðanna þannig að stilla verður af réttindi miðað við tryggingafræðilega afkomu þeirra á hverjum tíma, eru lífeyrisréttindi þeirra opinberu starfsmanna sem ekki vinna samkvæmt samningum ASÍ svokölluð fastréttindi. Það þýðir að réttindi þeirra eru ónæm fyrir afkomu sjóðanna og iðgjöldum. Á þeim grunni eru meðal annars réttindi allra hv. þingmanna. Með öðrum orðum viðgengst hér enn og hefur viðgengist allt of lengi óviðunandi og óásættanleg mismunun í lífeyrisréttindum þar sem almennu launafólki er ekki einasta ætlað að standa sjálft undir lífeyri sínum heldur einnig þeim mismun sem er á lífeyri þeirra og opinberra starfsmanna og það gerir allt fólk með skattgreiðslum sínum. (Gripið fram í: Almannatryggingakerfið.)

Nú vill þannig til að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er sá sjóður sem tapaði mest allra lífeyrissjóða á hruninu, yfir 100 milljörðum kr. Það hefur þó engin áhrif á réttindi sjóðfélaganna en leggst á alla skattgreiðendur að ábyrgjast. Þannig hefur almennt launafólk orðið fyrir skerðingu réttinda en þarf auk þess að fjármagna tap Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og uppsafnaðan vanda þess sama sjóðs og lífeyrissjóða sveitarfélaganna að auki.

Frú forseti. Ef eitthvað bíður hv. Alþingis öðru fremur á næstu mánuðum eru það tafarlausar aðgerðir til að eyða þessum mun og byrja að byggja upp sjálfbær lífeyrisréttindi fyrir alla landsmenn. Það verður erfitt en þessi munur er okkur sem þjóð til skammar. Hann er leifar gamallar mismununar og stéttaskiptingar og á meðan Alþingi lætur hjá líða að gera nauðsynlegar breytingar mun sú gjá dýpka sem þegar hefur orðið milli þings og þjóðar. En raunar vil ég fagna því, frú forseti, að ég hef ekki heyrt annað í ræðum annarra þingmanna sem talað hafa undir þessum dagskrárlið en að þeir séu allir reiðubúnir til að fara í þetta erfiða verkefni. Þar verður að gæta vel að því að við séum ekki að ráðast á þá einstaklinga sem með lögmætum og réttum hætti hafa áunnið sér lífeyrisréttindi. Við verðum að taka á þeim vanda sem uppsafnaður er og við verðum að horfa til framtíðar, tækifærið er núna.

Úr því að ég á svolítið eftir af ræðutíma mínum þá er kannski ekki úr vegi að víkja aðeins að þeim flóknu spurningum sem sumir þingmenn hafa velt upp í ræðum sínum og varða aðkomu að stjórnun lífeyrissjóðanna. Menn láta eins og þar sé um afskaplega einfaldan hlut að ræða. Svo er ekki. Við skulum taka dæmi af einum lífeyrissjóði á almennum vinnumarkaði sem er lífeyrissjóðurinn Gildi. Að þeim lífeyrissjóði standa átta stéttarfélög. Eitt af þeim stéttarfélögum er yfirburðastórt í því samhengi öllu saman. Hin stéttarfélögin sjö koma að stjórnun lífeyrissjóðanna ásamt með þessu stóra stéttarfélagi og þau skipta með sér verkum. Þau hámarka stjórnarsetu fulltrúa sinna í stjórn og þau skipta reglulega með sér verkum þannig að sjómenn hafa sína rödd í stjórnum sjóðanna, iðnverkafólk hefur sína, almennt verkafólk, iðnaðarmenn og aðrir. Það er gert á grundvelli samráðs í fulltrúaráðum verkalýðsfélaganna sem standa að kjöri í stjórn sjóðanna. Þetta hefur reynst vel. Þetta er líka afskaplega lýðræðislegt, nákvæmlega eins og við byggjum upp fulltrúalýðræði að öðru leyti.

Vilmundur heitinn Gylfason, sá væni drengur talaði um tröppulýðræði og gagnrýndi stéttarfélögin mjög fast. Hann gerði það að mörgu leyti með réttu og margt hefur færst til mikilla bóta eftir að hann talaði. En að segja að lýðræði í sjóðunum verði aukið með einhverju sem heitir beint lýðræði og aðkomu allra sjóðfélaga felur ekki neitt lýðræði í sér. Það felur í sér meirihlutavald þeirra sem eru flestir og stærstir. Við stöndum líka frammi fyrir mörgum erfiðum spurningum þegar við skoðum þetta. Sumir sjóðfélagar hafa greitt iðgjöld í kannski 40 ár og eiga mikil lífeyrisréttindi. Við erum með ungt fólk í sjóðunum sem hefur greitt í kannski tvö, þrjú ár. Við erum með sjóðfélaga sem þegar eru komnir á lífeyrisréttindi, sumir eiga lítil réttindi og aðrir mikil. Sumir sjóðfélagar hafa orðið örkumla snemma á starfsævi sinni en hafa full lífeyrisréttindi af því að sjóðirnir tryggja ekki bara ellilífeyri heldur líka örorkulífeyri. Allt þetta fólk á hagsmuna að gæta innan lífeyrissjóðanna en hefur mjög mismunandi réttindi. Að auki eiga sumir í mörgum sjóðum. Eins og hv. þm. Þór Saari benti á var hann á sjó í ein tíu ár og greiddi í Lífeyrissjóð sjómanna, og síðan hefur hann væntanlega stundað ýmis störf, eins og ég. Ég held að ég eigi réttindi í fimm eða sex sjóðum, þar á meðal Lífeyrissjóði sjómanna, Lífeyrissjóði Austurlands, ég á lífeyri í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, hjá sveitarfélögunum, hjá VR og hjá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, svo ég fari yfir það. Hvar í ósköpunum á ég að greiða atkvæði og hvað á atkvæði mitt að vega? Þetta er afgreitt með samráði og samvinnu stéttarfélaganna sem eiga aðgang að sjóðunum og ekkert, hvorki í þessari skýrslu né í umræðunni, hefur komið fram um að þetta hafi ekki gefist vel. Einmitt þetta valdajafnvægi innan sjóðanna hefur orsakað það að komið hefur verið í veg fyrir árásir ríkisins og allra þeirra sem vilja garnan eyða peningum lífeyrissjóðanna í góð mál án þess að vilja eiga innstæðu fyrir því að þeim er ætlað að sjá fyrir öldruðu og örkumla launafólki. Þetta hefur varið sjóðina gegn þeim árásum og það er gott.