140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Samkvæmt skýrslu úttektarnefndar á lífeyrissjóðunum töpuðust 480 milljarðar við bankahrunið og tapið varð meira en búast mátti við. Margir bera ábyrgð á tapi lífeyrissjóðanna eins og fram kemur í skýrslu úttektarnefndarinnar. Það er þá fyrst að nefna starfsfólk bankanna sem ráðlagði stjórnum sjóðanna að fjárfesta í fyrirtækjum án þess að upplýsa stjórnirnar um eignatengsl bankanna við þessi fyrirtæki. Auk þess komu fram upplýsingar um að stjórnum sjóðanna hefði ekki verið tilkynnt um rétta stöðu fyrirtækisins þegar verið var að taka ákvörðun um hvort leggja ætti fjármagn lífeyrisþega inn í þau fyrirtæki sem þeir fjárfestu í.

Stjórnir sjóðanna fóru líka á svig við fjárfestingarstefnu þeirra og verklagsreglur við ákvarðanatöku um fjárfestingar. Það kemur fram í skýrslu úttektarnefndarinnar að vísbendingar séu um að einhverjir sjóðir hafi fjárfest í óskráðum verðbréfum á þessu tímabili, sem var ólöglegt. Hér voru samþykkt lög í nóvember 2008 sem leyfa lífeyrissjóðunum að fjárfesta í óskráðum verðbréfum en fyrir hrun var þetta ólöglegt. Þessar upplýsingar renna stoðum undir þá skoðun margra að það sé nauðsynlegt að fram fari alvörurannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna fyrir hrun og vil ég taka undir nauðsyn þess.

Eftirlitsaðilar brugðust líka í aðdraganda hrunsins. Þeir mátu ekki gæði fjárfestingarsjóðanna og Alþingi á stóran hlut að máli hvað varðar að gefa sjóðunum tækifæri til að stunda áhættusamar fjárfestingar. Árið 2006 voru samþykkt lög sem heimiluðu lífeyrissjóðunum að fjárfesta ekki aðeins 35% heldur 60% af hreinni eign sinni í hlutabréfum. En eins og allir vita sem hafa kynnt sér viðskiptafræði eru hlutabréf afar áhættusöm fjárfesting og ekki í neinu samræmi við eðli lífeyrissjóða að geta fjárfest svo miklu af fjármagni sínu í áhættusamri fjárfestingu eins og hlutabréfum. Það er því undrunarefni að Alþingi hafi samþykkt þessi lög sem komu hér inn frá framkvæmdarvaldinu án þess að um það væri mikill ágreiningur á sínum tíma.

Kostnaður almennings af því að viðhalda núverandi lífeyriskerfi felst ekki aðeins í þeim 480 milljörðum sem töpuðust. Tapið mun verða mun meira þegar búið er að leiðrétta útblásnar eignir lífeyrissjóðanna en þær verða ekki leiðréttar fyrr en þær eru seldar. Ég vil geta þess hér að um 200 milljarðar af þeim 480 milljörðum sem lífeyrissjóðirnir töpuðu eru skattpeningar vegna þess að ekki er greiddur skattur af iðgjöldum.

Þetta tap sjóðanna varpar ljósi á ókosti þess að byggja upp lífeyriskerfi þar sem lífeyrissjóðir leika aðalhlutverk og sjá ekki bara um að ávaxta viðbótarlífeyrinn heldur einnig um samtrygginguna og það í efnahagskerfi sem er mjög óstöðugt. Að vísu er búið að draga úr ókostunum við sjóðmyndunarkerfið eða lífeyrissjóði í óstöðugu hagkerfi með verðtryggingunni en verðtryggingin getur reyndar ekki komið í veg fyrir að fjármagn tapist heldur aðeins tryggt að fjármagn lífeyrissjóðanna sem þeir fjárfesta haldi verðgildi sínu.

Frú forseti. Það er nauðsynlegt að íhuga hvernig við endurskipuleggjum lífeyrissjóðakerfið í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum af því að vera með stórt lífeyrissjóðakerfi í óstöðugu efnahagskerfi. Það er skoðun mín, eftir að hafa lesið skýrslu úttektarnefndarinnar, að það sé mjög mikilvægt að draga úr vægi lífeyrissjóðakerfisins og auka vægi almannatryggingakerfisins. Reyndar tel ég það vera forsendu þess að hægt sé að afnema verðtryggingu til lengri tíma litið.

Eftir hrunið, hófst reyndar haustið 2007, hefur verið reynt að draga úr tapi lífeyrissjóðanna með því að láta verðtryggðu kynslóðina taka alfarið á sig verðbólguskotið í stað þess að deila því á milli lánveitenda og lántakenda eins og gert hefur verið í öllum öðrum löndum sem hafa farið í gegnum bankahrun Þetta hefur þýtt gífurlega eignatilfærslu frá skuldsettum heimilum í gegnum banka og Íbúðalánasjóð til lífeyrissjóðanna og annarra fjármagnseigenda. Fyrir hrun áttu um 20% heimila ekki eignir fyrir skuldum en það hlutfall er komið í 40% og fer hækkandi.

Skuldavanda heimilanna má fyrst og fremst rekja til ákvarðana bankastarfsmanna, stjórna lífeyrissjóða og stjórnmálamanna en ekki til ákvarðana einstakra heimila eins og svo oft er látið í veðri vaka í dægurumræðunni. Þá er ég að vísa til kaupa fjölskyldna á Íslandi á flatskjám meðal annars. Réttlætingin fyrir almennri leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána er nefnilega eignabóla og eignabóla er verk banka og lífeyrissjóða. Þessi fasteignabóla er líka að hluta til verðtryggingunni að kenna sem er verk stjórnmálamanna. Þegar bankarnir hófu að lána ólögleg gengistryggð lán jókst gífurlega framboð lánsfjármagns til fasteignakaupa. Það myndaði eignabólu á fasteignamarkaði sem varð til þess að þeir sem keyptu eignir eftir 2004 — og frú forseti, til að upplýsa um sérhagsmuni ræðumanns keypti ræðumaður eign sína eftir 2004 — neyddust til að greiða allt of hátt verð fyrir fasteignina.

Verðtryggingin eftir hrun hefur síðan magnað upp vanda þeirra sem eru með fasteignalán þar sem hún tryggði að virði skulda hækkaði í kjölfar verðbólguskots á sama tíma og verð fasteigna lækkaði. Ég vil ítreka það enn og aftur að í engu öðru landi hafa einum hópi verið tryggðar verðtryggðar eignir á kostnað þeirra sem eru með óverðtryggðar eignir, í engu öðru landi sem hefur farið í gegnum fjármálakreppu hefur það gerst nema hér á Íslandi.

Óbreytt lífeyriskerfi mun magna upp skuldavanda verðtryggðu kynslóðarinnar og hrekja margt ungt fólk úr landi. Skuldakreppan hér á landi mun vara í áratugi ef samstaða næst ekki um almenna skuldaleiðréttingu. Og ég vil geta þess að það eru ekki bara hagsmunir heimilanna í landinu að hér fari fram almenn skuldaleiðrétting heldur líka banka og lífeyrissjóða vegna þess að þegar skuldir heimilanna verða leiðréttar munu margir geta losað sig við eign sína og stækkað við sig, með öðrum orðum þá mun komast hreyfing á fasteignamarkaðinn og eignir lífeyrissjóðanna munu hækka í verði í stað þess að falla í verði.

Frú forseti. Það er mikilvægt að við förum sömu leið og nágrannalöndin og komum meira jafnvægi á milli lífeyrissjóða og almannatryggingakerfisins. Í umræðunni um framtíð lífeyrissjóðanna hér á landi gleymist oftast að geta þess að sjóðir fela í sér áhættu og aðeins er einblínt á áhættuna í almannatryggingakerfinu. (Forseti hringir.) En sjóðir geta tapast og rýrnað og þeir tryggja ekki lífeyri sem dugar til framfærslu.