140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:27]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætt svar við spurningum mínum og hlýt að lesa það úr svörum hans að hann telji ástæðu til að fara í talsverða endurskoðun á lögum um lífeyrissjóði, eins og kemur reyndar fram í úttektarskýrslu lífeyrissjóðanna sem hér er til umræðu. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni, ég held kannski að það sé það verk sem löggjafinn og þingið þurfi að fara í núna í kjölfar þess að ráðast í endurskoðun á löggjöfinni í samræmi við það sem fram kemur í úttektarskýrslunni og líka með hliðsjón af reynslunni.

Eins og ég nefndi áðan hafa verið gerðar allmiklar breytingar á lögum um lífeyrissjóði á undanförnum árum oftast nær til að rýmka heimildir þeirra til að fjárfesta með tilteknum hætti. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann út í það hvort hann telji að Alþingi hafi gert mistök, að einhverjar þær lagabreytingar sem gerðar hafa verið á undanförnum árum hafi meðal annars, ekki auðvitað eingöngu heldur meðal annars orsakað það sem fram kemur í skýrslunni varðandi tap sjóðanna og mistök í fjárfestingarstefnum o.s.frv.

Hv. þingmaður nefndi það áðan einnig að gerð hafi verið breyting á lögum varðandi hæfi stjórnarmanna sem hann taldi af hinu góða og ég tek undir það með þeim orðum að það væri þá gott að menn hefðu eitthvert vit á því sem þeir væru að gera. Telur hv. þingmaður að þær stjórnir sem sátu fyrir lífeyrissjóðunum hafi ekki haft mikið vit á því sem þær voru að gera? Var hægt að gera eitthvað betur? Voru allir að uppfylla skyldur sínar hvað þetta varðar? Voru gerð einhver mistök þar rétt eins og hugsanlega hafa verið gerð af hálfu þingsins og hvaða mistök voru það þá helst sem leiddu til þess að niðurstaða skýrslunnar bendir til þess að lífeyrissjóðirnir hafi tapað hátt í 500 milljörðum kr.?