140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:46]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað upp til að spyrja hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson betur út í hugmyndir hans um hvernig best sé að endurskipuleggja lífeyriskerfið. Hæstv. ráðherra talar um að kannski sé ráð að vera með meiri blöndun, vera bæði með öflugt almannatryggingakerfi og síðan lífeyrissjóðakerfi. Ég velti þá fyrir mér hvernig við förum að því að fara yfir í þetta kerfi. Hæstv. ráðherra talaði um að kannski yrði að fjármagna almannatryggingakerfið með auðlindagjaldi en það væri líka hægt að gera það með því að skattleggja iðgjaldagreiðslur. Þannig væri hægt að tryggja strax lífeyri úr almannatryggingakerfinu sem dygði fyrir framfærslu.

Síðan velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé sammála því að núverandi lífeyrissjóðakerfi sé orðið of stórt fyrir íslenskt hagkerfi og hvort ekki séu veigamikil rök fyrir því að styrkja almannatryggingakerfið sem hefur verið holað að innan.

Að lokum langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að það verði hægt að ná sátt við aðila vinnumarkaðarins um þá breytingu að koma hér á blönduðu lífeyriskerfi með annars vegar öflugu almannatryggingakerfi eða gegnumstreymiskerfi og síðan sjóðsmyndunarkerfi eða lífeyrissjóðakerfi.