140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé hægt að ná sátt um þetta með samtali við verkalýðshreyfinguna. Hún hefur jafnan litið á lífeyrismálin sem kjarnlægt atriði í kjarabaráttunni og lífskjörum fólksins í landinu. Það er grundvallaratriði að við höfum tryggt lífeyriskerfi. Verkalýðshreyfingin hefur þannig staðið vörð um almannatryggingakerfið og einnig um lífeyrissjóðina, en nú er svo komið að við þurfum að endurskoða allar grunnforsendur. Það á að vera lærdómurinn af því sem þegar hefur gerst, að það kerfi sem við smíðuðum 1997 er háð sveiflum kapítalismans og þar er mikið óöryggi, ekki bara í íslensku hagkerfi heldur hvert sem við förum með krónuna. Norski olíusjóðurinn tapaði fjórðungi af eignum sínum á árinu 2008, það er bara veruleiki.

Auðvitað er það markmið að taka meira af því fé sem við leggjum til í viku hverri, opinberir starfsmenn sem greiða 15,5% brúttó, atvinnurekandi og launamaður, í lífeyrissjóð, ég tala nú ekki um eftir að séreignarsparnaðurinn kom líka til upp á 4%. Það eru tæp 20%, það er fimmtungur af laununum, einn dagur í fimm daga vinnuviku, sem við borgum þá í lífeyrissjóð. Þarna eru gríðarlegir fjármunir á ferðinni og hagkerfið okkar rís ekki undir þessu. Þá er um það að velja að við förum með aukið fjármagn út úr landinu eða, sem ég tel heppilegra, að við beinum því inn í uppbyggileg samfélagsleg verkefni. Þannig viljum við nota þessa peninga. En við þurfum að vanda okkur vel. Ef við setjum þetta inn í félög sem eiga að sinna samfélagslegum verkefnum er hættan sú að það verði til þess að ýta á eftir og stuðla að einkavæðingu samfélagsþjónustunnar. Þá værum við komin með lífeyrissjóði sem væru eignaraðilar og krefðust hámarksávöxtunar. Allt þetta þarf að skoða (Forseti hringir.) í samhengi og við eigum að gefa okkur góðan tíma til þess á komandi (Forseti hringir.) mánuðum og missirum. Það er mjög brýnt að taka þessa umræðu og við eigum að vera róttæk í hugsun.