140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[17:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem við ræðum leiðir í ljós að lífeyrissjóðakerfið okkar tapaði í efnahagshruninu 480 milljörðum kr. Menn hafa vefengt þessa tölu. Sumir hafa talað um að hún sé verulega lægri, ég hef heyrt töluna 380 milljarða, og aðrir hafa jafnvel nefnt miklu lægri tölur eða jafnvel ekkert tap. Það breytir því ekki að það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fara í gegnum þessa umræðu alla.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að það kalli á heildarendurskoðun á lífeyrissjóðareglum okkar. Við þurfum að skoða afmarkaða þætti. Við þurfum að velta fyrir okkur hvað hafi orðið til þess að menn fóru greinilega óvarlega í ýmsum fjárfestingum. Það er ljóst mál að menn voru allt of mikið bundnir á klafa fjárfestinga einstakra fyrirtækjasamsteypna og af því eigum við að læra.

Mér hefur stundum fundist í umræðunni að menn hafi ætlað að nota ferðina og tækifærið núna til að vega að grundvelli sjálfs lífeyriskerfis okkar Íslendinga sem við höfum byggt mjög myndarlega upp á grundvelli laganna frá 1969.

Hyggjum aðeins að. Það lífeyriskerfi sem við höfum verið að byggja upp er að mínu mati eitthvert besta verkefni sem hefur verið unnið í samfélagi okkar. Það byggir á söfnunarsjóðalífeyri en ekki gegnumstreymislífeyri. Þetta fyrirkomulag er öfundarefni margra þjóða. Við getum sagt sem svo að það sé í lagi að hafa hér söfnunarsjóðafyrirkomulag þegar þjóðin er tiltölulega ung og þegar hagvöxtur er mikill en þegar þjóðir eru eins og við sjáum í Evrópu, þær eru að eldast, fólkinu er jafnvel að fækka og hagvöxtur er lítill, þá skapast sá gríðarlegi vandi sem blasir núna við mjög mörgum þjóðum en ekki okkur vegna þess að þær eru með gegnumstreymiskerfi en við erum með söfnunarsjóðakerfi. Þess vegna er mjög mikilvægt þegar þessi umræða fer fram og lífeyrissjóðirnir hafa verið settir í neikvætt ljós að við reynum að halda haus og standa í lappirnar og verja það fyrirkomulag í grundvallaratriðum sem er á lífeyrissjóðakerfi okkar. Um það þarf umræðan að snúast núna.

Við þurfum að skoða það sem aflaga fór en við eigum ekki að nota tækifærið sem hefur blasað við sumum, að þetta sé tilefni til að kollvarpa þessu kerfi, leggja það jafnvel af, taka bara upp gegnumstreymiskerfi þar sem ríkið sjái okkur eingöngu fyrir almannatryggingum. Það væri ávísun á stórkostlegar skattahækkanir eins og við sjáum með því að bera sama skattprósentur okkar og skattprósentur OECD og skoða framlög til tryggingamála í gegnum skattkerfi annarra þjóða. Þá sjáum við að ef við hyrfum frá fyrirkomulagi okkar mundi það kalla á miklar tekjuskattshækkanir.

Það er hins vegar rétt sem hefur verið bent á að það sem hefur gerst hjá okkur er að við höfum aukið tekjutengingarnar of mikið, sérstaklega undanfarin ár. Það veldur því sem forseti Alþýðusambands Íslands hefur bent á að þetta virkar eins og 100% skattlagning. Það er þáttur sem ég held að við hljótum núna í ljósi upplýsinganna, í ljósi reynslunnar að taka til endurskoðunar. Vissulega er dýrt að falla algjörlega frá tekjutengingum en við hljótum að geta sammælst um að þar hafi menn gengið allt of langt og hefur það í raun dregið úr hvatanum til að byggja upp lífeyriskerfi okkar og grefur í sjálfu sér undan því til lengri tíma.

Þegar við tölum núna um það hvort okkur hafi tekist vel eða illa upp með lífeyrissjóði okkar getum við ekki leyft okkur það eitt að horfa á árin 2008 eða 2009. Þau ár voru mjög afbrigðileg hvernig sem á málin er litið. Og þó að menn geti gagnrýnt einstakar fjárfestingar lífeyrissjóðanna er alveg fráleitt að dæma heilt lífeyrissjóðakerfi nánast úr leik og dæma alla þá sem hafa starfað innan þess kerfis öll árin sem óhæfa einstaklinga vegna þess að það varð hrun 2008.

Það er rétt að ávöxtunin á lífeyrissjóðunum var neikvæð um 22% árið 2008, en skoðum þá árin á undan: Mjög léleg ávöxtun var 2007 en 2006 var 10% raunávöxtun, 13% 2005, 10% 2004, 11% 2003. Þetta eru tölur sem menn ættu að hyggja að; tölurnar segja okkur að í raun og veru hafi tekist alveg bærilega með ávöxtunina í lífeyriskerfi okkar þó að núna standi kerfið hins vegar frammi fyrir þeim vanda að fá fjárfestingartækifæri eru í boði, hér eru gjaldeyrishöft og allt of mikil stöðnun í samfélaginu, en það er önnur saga.

Menn segja að núna sé sérstakt tilefni til að breyta lífeyriskerfi okkar þannig að settur verði á stofn einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Ég er mjög ósammála því. Ég er sammála því á hinn bóginn að tilefni sé til að lækka rekstrarkostnaðinn í lífeyriskerfinu með fækkun lífeyrissjóða, ég ætla ekki að nefna neina sérstaka tölu í því sambandi, en ég vara alvarlega við hugmyndum um að hafa einn lífeyrissjóð. Gætum að.

Lífeyrissjóðirnir eiga í dag 2 þús. milljarða kr. til greiðslu lífeyris, sem er um það bil 30–40% hærri tala en sem nemur árlegri landsframleiðslu okkar og fjórföldum fjárlögum. Ætla menn sem oft og tíðum tala hér um mikilvægi lýðræðis og valddreifingar í landinu að koma málum þannig fyrir að 2 þús. milljarðar kr., fjárfestingarþörf upp á 120 milljarða kr. á hverju einasta ári, verði nú lögð í hendurnar á einum forstjóra og sjö, átta eða níu einstaklingum í stjórn slíks sjóðs? Ég held að það væri gríðarlegt háskaspil og mikil áhætta fyrir lífeyriskerfi okkar, fyrir utan það sem margir hafa bent á að þar gæti orðið til mikið ægivald stjórnmálanna vegna þess að þar með væri búið að setja lífeyrissjóð ríkisins inn í þetta kerfi sem ber mjög stóran hluta af lífeyrisgreiðslum í dag.

Ég vil líka segja að það má ekki gleyma því að þegar lífeyriskerfinu var komið á árið 1969, og hefur það þróast síðan, þá var það gert á grundvelli samninga atvinnulífsins og launþega. Þess vegna er mjög eðlilegt að fulltrúar þessara aðila eigi sæti í stjórnum lífeyrissjóðanna. Vel má vera, eins og nefnt er í þessari skýrslu, að til að mynda einn eða fleiri fulltrúar verði kosnir almennri kosningu, en ég held að það sé mjög mikilvægt að verkalýðshreyfingin og atvinnulífið eigi fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóðanna því að það er alveg rétt sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur bent á, að ef aðkoma þessara aðila að stjórnum lífeyrissjóða verður afþökkuð með lagasetningu eða á annan hátt liggur beinast við að við hverfum frá þeirri hugmyndafræði sem býr að baki lífeyrissjóðum okkar. Það væri ákaflega óskynsamlegt að mínu mati. Upp í hugann kemur nokkuð sem minn góði félagi og vinur Einar Oddur Kristjánsson heitinn nefndi oft í þessu sambandi og það er atvinnurekendaábyrgðin sem er ábyrgð atvinnulífsins á lífeyrissjóðunum, sem skiptir svo miklu máli fyrir þetta kerfi okkar.

Ég vil líka segja annað. Hér hafa menn verið að velta fyrir sér hvað hafi orðið þess valdandi að lífeyrissjóðirnir töpuðu svo miklum peningum. Ætli það sé ekki eitthvað svipað og varð almennt til þess að menn töpuðu peningum, hvort sem það voru einstaklingar eða fyrirtæki? Eins og dæmin sanna í þessari skýrslu þá fóru menn óvarlega í einstökum tilvikum og ég hygg að það skýri í meginatriðum þetta tap.

Menn hafa vísað hér til lagasetninga sem opnuðu allt of rúmar heimildir til hlutabréfakaupa eða fjárfestinga erlendis. Ég vek hins vegar athygli á því að þær heimildir voru ekki nýttar þannig að það er augljóst mál að þær lagabreytingar voru ekki sjálfstætt tilefni þess að lífeyrissjóðirnir töpuðu fé, það getur ekki verið. Ef menn notuðu ekki þær heimildir, ekki einu sinni þær heimildir sem voru til staðar til fjárfestinga erlendis eða fjárfestinga í hlutabréfum, gat breyting á lögum sem fól í sér rýmri heimildir, sem menn nýttu síðan ekki og nýttu ekki einu sinni gömlu heimildirnar, augljóslega ekki verið gerandi í sjálfu sér í þessum efnum.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir lífeyriskerfi okkar að geta fjárfest erlendis. Það er hluti af því að tryggja góða ávöxtun, það er hluti af því að draga úr áhættunni. Það er auðvitað vandamál lífeyriskerfisins í dag að fjárfestingarmöguleikarnir eru litlir, það er vandamál lífeyriskerfisins í dag að geta ekki fjárfest meira erlendis og nýtt sér þau tækifæri. Það væri til dæmis fróðlegt að sjá hvort fjárfestingar í heild erlendis hafi ekki skilað góðri ávöxtun, a.m.k. í krónum talið eftir 50% fall eða hvað það var á íslensku krónunni.

Þess vegna segi ég: Ég vara við því að menn bregðist við í einhverju krampakenndu ástandi, banni fjárfestingar í útlöndum, banni mönnum að fjárfesta í atvinnulífinu eða (Forseti hringir.) einhverju slíku. Menn verða að fara varlega, (Forseti hringir.) við erum með gott kerfi í grunninn og eigum að verja það.