140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[17:29]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér stöðu lífeyrissjóðanna. Tilefni umræðunnar er meðal annars útkoma mikillar skýrslu um starfsemi lífeyrissjóðanna þar sem fram kemur að lífeyrissjóðirnir hafi tapað gríðarlega miklum fjármunum. Í kjölfar útgáfu skýrslunnar hefur magnast upp sú umræða að lífeyrissjóðakerfið á Íslandi sé á einhvern hátt ófullkomið og að stokka þurfi það upp. Við heyrum ýmsar hugmyndir frá hv. þingmönnum og úr þjóðfélaginu, eins og þá að við eigum að afnema kerfið og koma upp gegnumstreymiskerfi, við heyrum hugmyndir, eins að hér eigi að vera einn lífeyrissjóður o.s.frv. Jafnframt heyrist talað um að stjórn lífeyrissjóðanna sé einhvern veginn ábótavant og að breyta þurfi stjórnskipulagi sjóðanna. Við heyrum umræðu um að fjárfestingarstefnu sjóðanna hafi verið ábótavant o.s.frv.

Mat mitt á því öllu saman er að flest af þessu er byggt á misskilningi. Ég tel að það hafi verið mikið gæfuspor þegar almennu lífeyrissjóðirnir voru innleiddir með lögum árið 1969. Að vísu voru fyrstu tíu ár almennu sjóðanna fremur misheppnuð þar sem lífeyrissparnaður brann upp í verðbólgu, en eftir að Ólafslög voru samþykkt og verðtrygging varð almenn hafa byggst upp eignir í sjóðunum jafnt og þétt frá því í kringum 1980. Sjóðirnir eiga núna gríðarlegar eignir, um 2 þús. milljarða, og lífeyrissjóðakerfið á Íslandi er það annað stærsta í heiminum miðað við höfðatölu, sem er ótrúlegur árangur á þessum rúmu 30 árum.

Lífeyrissjóðakerfið á Íslandi er þannig að þeir sem byrjuðu að borga inn í kerfið í upphafi þegar hin raunverulega sjóðsöfnun hófst í kringum 1979 eru búnir að greiða inn í rúm 30 ár, en þeir fyrstu sem greitt hafa inn alla sína starfsævi munu fara á eftirlaun eftir um tíu ár.

Ef við berum íslenska lífeyrissjóðakerfið til dæmis saman við Noreg, sem byggt hefur á gegnumstreymiskerfi, og tökum olíusjóðinn svokallaða sem standa á undir lífeyrisgreiðslum Norðmanna í framtíðinni er staða Íslands og Noregs að því leyti mjög svipuð. Lífeyrissjóðakerfið á Íslandi er í hlutfalli við landsframleiðslu á mjög svipuðu stigi og olíusjóður Norðmanna þannig að þegar við Íslendingar tölum um gríðarlegt ríkidæmi Norðmanna væri okkur nær að líta einfaldlega til lífeyrissjóðakerfisins hér heima.

Hvað varðar það hvort kerfið sé illa hannað eða illa uppbyggt er það algjörlega að fyrirmynd þess sem Sameinuðu þjóðirnar lögðu til í skýrslu sem gerð var í byrjun 10. áratugarins, þ.e. við byggjum á þrískiptu kerfi, við byggjum á kerfi þar sem eru almannatryggingar sem taka við þeim sem aldrei hafa verið á vinnumarkaði og hafa þar af leiðandi ekki náð að safna upp lífeyrisgreiðslum og jafnframt þeim sem detta snemma út af vinnumarkaði af einhverjum ástæðum, út af örorku, slysum eða öðru slíku. Annað stigið er starfsgreinalífeyrissjóðirnir sem eru almennu sjóðirnir og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Ofan á það kemur séreignarsparnaðurinn þar sem hver og einn fær út í samræmi við það sem hann hefur lagt inn yfir starfsævina.

Þessar stoðir liggja allar undir miklu ámæli núna, getum við sagt, vegna þess að miklir peningar töpuðust í hruninu. Í þeirri skýrslu sem ég minntist á áðan er tjónið metið á rúma 470 milljarða, en ef við skoðum aðeins hvernig sú tala er fengin er óhætt að segja að hægt er að gera verulegar athugasemdir við þá útreikninga. Í skýrslunni er sú forsenda gefin að hrunið á íslenskum fjármálamarkaði hafi byrjað 1. janúar 2008. Það eina sem gerðist 1. janúar 2008 var að það var nýársdagur. Þá varð enginn atburður sem markaði upphaf þess hruns sem við upplifðum á Íslandi. Allir sanngjarnir menn sjá að það er ómögulegt að taka fall á fjármagnsmörkuðum hér heima og erlendis og bóka það sem tap vegna hrunsins. Það er algjörlega ómögulegt. Með réttu hefði átt að miða tapið við 6. eða 7. október. Ef það er gert er tapið ekki 470 milljarðar heldur í kringum 370 milljarðar. Ég hef heyrt umræðu um það í fjölmiðlum og annars staðar að fólk sé búið að tapa öllum iðgjöldunum sínum. Mætir menn bæði á Alþingi og úti í þjóðfélaginu halda því að fólki. Það er þvílík vitleysa að það tekur engu tali. Það er best að útskýra það með líkingamáli: Tökum pott, setjum hann í vaskinn heima hjá okkur, setjum smáuppþvottalög í og skrúfum frá vatninu. Hvað gerist? Jú, vatnsborðið í pottinum hækkar, þ.e. iðgjöldin hækka, en ofan á er gríðarlega stór bóla. Þessi stóra bóla er hin gríðarlega hækkun sem varð á fjármagnsmörkuðum, bæði hér heima og erlendis, árin 2005, 2006 og 2007 en fór síðan að falla 2008. Sópum nú í burtu froðunni sem safnast hefur ofan á vatnið í pottinum, þ.e. iðgjöldin. Iðgjöldin standa eftir og meira að segja með ávöxtun. Það eru hreint og beint ósannindi að hér hafi orðið algjör kollsteypa í lífeyrissjóðakerfinu. Það kom froða inn í kerfið og það fór að freyða út úr kerfinu. Þannig var það bara. Að fólk skuli leyfa sér að segja að umturna eigi því kerfi sem tekist hefur að byggja hér upp, sem íslensku launafólki hefur tekist að byggja upp á síðustu 30 árum, er vægast sagt ótrúlegt.

Menn tala um að stjórn sjóðanna hafi verið ábótavant. Ég gerði skýrslu fyrir nokkrum árum sem var úttekt á stjórnarfyrirkomulagi starfsgreinalífeyrissjóða í OECD-ríkjunum. Þá kom í ljós að það er algjört meginatriði að atvinnurekendur og launþegar stjórni sjóðunum saman. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, það er vegna þess að það eru mjög sterkir hagsmunir þessara aðila að sjóðirnir séu vel reknir, að þeir ávaxti sig vel og að peningar séu ekki settir í einhverjar bullfjárfestingar. Það er meginfyrirkomulagið. Hitt er aftur á móti annað mál að við erum með sjóði sem hefur eingöngu verið stjórnað af sjóðfélögum og þeir hafa ekki verið betur reknir en hinir. Við sjáum að þeim sjóði sem tapaði næstmestu eða mestu, er algjörlega stjórnað af sjóðfélögum.

Umræðan er öll á villigötum (Forseti hringir.) og það er mjög miður að þingmenn og framámenn í þessu þjóðfélagi skuli taka þátt í þessari bullumræðu sem ég vil kalla.