140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[17:48]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp til að taka undir sumt af því sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fór yfir hér áðan, en kannski líka að bæta aðeins við það.

Það er þessi umræða um froðutapið. Hún er svolítið skrýtin vegna þess að sumt af froðunni varð að peningum og annað ekki. Það sem ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag — ég fór svo sem ekki nákvæmlega út í það — er það dæmi að lífeyrissjóður kaupir hlutabréf í fyrirtæki fyrir 10 milljónir á árinu 2004. Þetta er svo bókfært í bókhaldi sjóðanna á árunum 2004, 2005, 2006 og 2007 og verðmætið er 31. desember 2007 komið í 100 milljónir, þ.e. það hefur tífaldast á þessum tíma. Félagið verður síðan gjaldþrota við hrunið haustið 2008 eða síðar. Er þá tapið 100 milljónir eða er það 10? Hvað var það sem var lagt inn í dæmið upphaflega? Þetta er það sem vantar inn í heildaryfirlit skýrsluhöfunda, en þeir gera reyndar þann fyrirvara sjálfir og gera ágæta grein fyrir því.

Ég er líka ósammála því sem varðar leiðréttingu á skuldum heimilanna. Ég tel mjög erfitt að fallast á að það sé hlutverk ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega í lífeyrissjóðunum að standa undir almennum skuldaleiðréttingum heimilanna. Sú notkun á þeim fjármunum yrði ekki í samræmi við markmiðið með því að safna þeim, þeir eiga að standa undir þeim lífeyri. Ég vil hins vegar halda því til haga að Alþýðusamband Íslands var með mjög róttækar hugmyndir þegar í kjölfar hrunsins um það hvernig taka ætti á skuldavanda heimilanna. Það var mun róttækari og öflugri greiðsluaðlögunarlöggjöf en sú sem leit loks dagsins ljós. Alþýðusambandið stóð því dyggilega að því en var alltaf og er andsnúið því að lífeyrissjóðirnir (Forseti hringir.) séu notaðir til þess arna.