140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram í upphafi að gagnrýni mín á skýrsluna á ekkert við þá einstaklinga sem unnu hana. Þegar ég segi að hér sé verið að hvítskúra lífeyrissjóðina á ég fyrst og fremst við þá afmörkun sem felst í efni þeirrar rannsóknar sem þeim var falin sem stóðu að skýrslunni.

Á bls. 14 í 1. bindi skýrslunnar kemur fram hver afmörkunin á efni rannsóknarinnar var, t.d. hvernig nefndin átti að koma að málinu. Í skýrslunni er ljósrit af skipunarbréfi frá lífeyrissjóðunum sjálfum og greinargerð þar sem lífeyrissjóðirnir sjálfir fara raunverulega fram á það sem skuli rannsakað.

En það sem ég gagnrýni eiginlega fyrst og fremst varðandi þennan hvítþvott, þó að hv. þingmanni þyki skýrslan ekki vera þvottur, er það ákvæði sem finna má á bls. 15 um þagnarskyldu og birtingu trúnaðarupplýsinga. Þar kemur fram að stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn, svo og endurskoðendur lífeyrissjóðs, eru bundnir þagnarskyldu um allt sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Þetta er sótt í 32. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Þá kem ég að því sem ég var að tala um: Vegna þess að nefndarmenn voru tilnefndir af ríkissáttasemjara en launaðir af Landssamtökum lífeyrissjóða, er talið að nefndarmenn séu bundnir þagnarskylduákvæði í takt við 32. gr. laga um lífeyrissjóðina. Þeir eru bundnir trúnaði um það sem þeir urðu áskynja í starfinu og skýrsluvinnunni og þess vegna hefur það ekki skilað sér í skýrsluna. Það er það sem ég er að meina. Rannsóknarheimildirnar voru ekki nægar og trúnaður var svo mikill (Forseti hringir.) að enn er eitthvað þarna á bak við sem ekki hefur litið dagsins ljós.