140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:17]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi að það væri kjörið ráð að þeir sem skulduðu mikið fé gætu fengið innstæður sínar greiddar í lífeyrissjóðunum til að létta skuldabyrðina. Ég held að í þessum ummælum þingmannsins felist grundvallarmisskilningur. Það er ekki þannig að lífeyrisþegar eða þeir sem greiða inn í lífeyrissjóðina, sjóðfélagarnir, eigi þar tilgreindar innstæður. Þeir eiga þar réttindi ef greitt er út úr sjóðunum en vegna þess að þeir eru kollektífir þarf að rýra réttindi allra til að standa straum af þeirri útgreiðslu. Þetta er nú bara lykillinn að öllu lífeyrissjóðakerfinu.

Aðeins um trúverðugleika skýrslunnar. Ég get tekið undir allt sem hv. þm. Einar Guðfinnsson fór yfir áðan. Ég vil hins vegar bæta því við að ekki var alveg rétt með farið þegar lesin var bls. 14 og 15 í skýrslunni. Þar kemur mjög skýrt fram og farið yfir það hver þagnarskyldan er, það megi ekki rjúfa hana, en í síðustu málsgreininni kemur fram, eins og þingmaðurinn getur efalaust séð, að nefndarmenn fengu allar upplýsingar sem þeir þurftu og báðu um og þeir áskildu sér rétt til að birta þann hluta upplýsinganna sem varðaði almannahagsmuni ef þeir rækjust á slíkt. Það varðaði meðal annars refsiverð brot. Þeir fengu því allar þær heimildir sem þeir þurftu og nýttu þær. Þess vegna er þessi skýrsla enginn hvítþvottur. En það er alveg ljóst að það er verkefni fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að fara yfir hana og skoða hvað þarf frekar að skoða og að meta skýrsluna í heild sinni.