140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Okkur greinir eitthvað á um akkúrat bls. 14 og 15. Ég kem ekki auga á það sem hv. þingmaður var að lesa en látum það liggja á milli hluta. Auðvitað get ég ekki lesið upp í ræðustóli tvær heilar blaðsíður í tveggja mínútna andsvari, en ég fór yfir þagnarskylduna og afmörkun á efni rannsóknarinnar.

Þingmaðurinn fór yfir það hvernig lífeyrissjóðakerfið er byggt upp í dag eða réttara sagt hefur verið byggt upp og ég er mjög vel að mér um það hvernig það er byggt upp. Þingmaðurinn fór yfir það að ef greitt yrði úr lífeyrissjóði mundu allir fá skerðingu á sig. Ég segi að við þurfum að fara að hugsa út fyrir kassann. Ísland stendur jafnvel svo illa, ríkissjóður stendur svo illa að af og til laumast inn hugmyndir hjá manni um að stíga þurfi það skref að ríkisvæða raunverulega lífeyrissjóðakerfið og taka upp gegnumstreymissjóðskerfi, því að staðan er svo slæm og svo miklar duldar skuldir hjá ríkissjóði. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taldi þá 2 þús. milljarða sem lífeyrissjóðirnir eiga í sjóðum eða hvar sem þeir eru geymdir, til ríkiseigna. Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var hér á landi og Icesave-málið stóð sem hæst kom þetta debetmegin inn í ríkisreikninginn og þannig gátu þeir lækkað skuldaprósentu ríkisins til að hún liti betur út. Við skulum því átta okkur á því að lífeyrissjóðakerfið okkar er í bráðri hættu gagnvart þessu.

Alþingi setur lög og breytir lögum. Ef það er til hagsbóta fyrir heimilin í landinu að breyta lífeyrissjóðslögunum á þann hátt að hægt sé fyrir þá einstaklinga sem hafa borgað í sjóðina að nota fjármagnið að einhverju leyti til að greiða inn á skuldugt íbúðarhúsnæði til að viðkomandi haldi því, eigum við að skoða það með opnum hug. Það er allt mögulegt, (Forseti hringir.) og ég minni á að inneign í lífeyrissjóðakerfi nútímans er inneign til framtíðar og það ætti (Forseti hringir.) að vera hægt að nota hana núna, í nútíðinni, sérstaklega í ljósi aðstæðna.