140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að bregðast aðeins við ræðu hv. þingmanns vegna þess að hann undraðist svo mjög orð mín um þjóðnýtingu lífeyrissjóðanna og þær hugmyndir og pælingar. Mig langar til að spyrja þingmanninn: Telur hann það ekki stappa nærri þjóðnýtingu þegar Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur tapað 101 milljarði í bankahruninu? Stappar það ekki nærri þjóðnýtingu að 40 milljarða vantar í þann lífeyrissjóð sem skattgreiðendur þurfa síðan að bera? Það gerir rúma 140 milljarða sem vantar í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og leggjast á skattgreiðendur landsins vegna þess að sá lífeyrissjóður hefur ríkisábyrgð. Má ekki segja að það sé að vissu leyti þjóðnýting þegar skattþegar landsins þurfa að koma með pening inn í til dæmis þann lífeyrissjóð?

Stappar ekki nærri þjóðnýtingu að ríkisstjórnin geti sett lög á almennu lífeyrissjóðina og skattlagt þá eins og gert var fyrir síðustu áramót til hagsbóta fyrir landsmenn alla en ekki þá sem raunverulega eiga lífeyrissjóðina? Þetta stappar nærri þjóðnýtingu að mínu mati.

Ríkisstjórnin hafnar því að innskatta séreignarsparnaðinn. En ríkisstjórninni finnst alveg sjálfsagt að útskatta séreignarsparnaðinn þegar fólk tekur hann út í vandræðum sínum til að borga af húsnæðislánum. Samt eiga lífeyrissjóðsgreiðslur að vera óaðfararhæfar. Ríkisstjórnin hefur orðið uppvís að lögbroti með því að setja lög um að hægt sé að taka út séreignarsparnað og fólk notar hann til að greiða niður húsnæðisskuldir vegna þess að lífeyrissjóðsgreiðslur eru ekki aðfararhæfar. Það stappar nærri því að verið sé að þjóðnýta lífeyrissjóðina. Er þingmaðurinn (Forseti hringir.) ekki sammála mér í þessu efni?