140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja að þremur atriðum í seinni ræðu minni. Í fyrsta lagi er mér sagt að ég hafi haldið því fram í fyrri ræðu minni að Lífeyrissjóður bankamanna hefði tapað 50% á hrunárunum. Ef ég hef sagt það voru það mismæli, ég var að vísa í Lífeyrissjóð verkfræðinga sem tapaði hlutfallslega einna mestu fé á þeim árum en ekki bankamanna sem tapaði einna minnst.

Í öðru lagi spurði hv. þm. Pétur H. Blöndal hvort ég hefði gert tillögu um það á því ári sem ég gegndi síðast stjórnarformennsku í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að iðgjöld yrðu hækkuð. Svo var ekki, enda var það svo að tryggingafræðileg úttekt sem gerð var á sjóðnum í árslok 2006 sýndi að munurinn á milli skráðra eigna annars vegar og lífeyrisskuldbindinga hins vegar var 0,6%, það vantaði 0,6% upp á að staðan væri jákvæð. Það var því engin ástæða til að gera tillögu um breytingar á iðgjaldi þá, því að eins og kunnugt er er grunnreglan sú samkvæmt lögum að 10% munur þarf að verða til þess að nauðsyn beri til, lögum samkvæmt, að breyta iðgjöldunum, en eins og ég gat um í fyrri ræðu minni var ákvæðum laga breytt að þessu leyti til bráðabirgða vegna hrunsins og það hækkað upp í 15%. En þarna vorum við sem sagt mjög fjarri þeim mörkum. Þetta vildi ég upplýsa af því að sérstaklega var spurt um þennan þátt.

Þá er það sá efnisþáttur sem ég vildi gera að umræðuefni á þeim stutta tíma sem ég hef hér og það eru vangaveltur manna um kosningar í stjórnir lífeyrissjóðanna. Þær eru sem kunnugt er skipaðar fulltrúum atvinnurekenda annars vegar og fulltrúum launafólks hins vegar. Ef ég horfi til launafólksins sérstaklega er það nú svo að helstu samtök launafólks kjósa sína fulltrúa og þar er síðan að finna lífræna tengingu öllum stundum. Það sem gerist hjá hlutafélögum þar sem kosið er á aðalfundum í stjórnir fyrirtækja eða þess vegna sjóða, banka eða stofnana er að kosið er á aðalfundi en síðan eru tengslin nánast engin þar til aðalfundur er haldinn næst. Tengsl á milli verkalýðshreyfingar og lífeyrissjóðanna eru hins vegar stöðug. Ég hef oft sagt frá því að þann tíma sem ég gegndi formennsku í BSRB var á hverjum einasta aðalfundi efnt til umræðu um lífeyrismálin, mjög oft á stjórnarfundum, á öllum þingum bandalagsins voru lífeyrismálin tekin sérstaklega til umfjöllunar. Efnt var til sérstakra funda og ráðstefna til að taka á lífeyrismálunum og þegar lífeyrissjóðirnir komust í bobba urðu fundir tíðari. Hin lífrænu, lýðræðislegu tengsl voru því mjög sterk við sjóðfélaga vegna þess að samtök launafólks eru samtök sjóðfélaga.

Við skulum ekki gera lítið úr því hve ríka áherslu verkalýðsfélögin, samtök launafólks, hafa lagt á að verja lífeyriskerfið og lífeyrisréttindi félagsmanna sinna. Þetta tal um að brydda eigi upp á þeirri nýbreytni að veita fólki lýðræðislegan aðgang að lífeyrissjóðunum er engin nýbreytni, alls ekki. Það eru lífræn tengsl þarna eru á milli, lífræn, lýðræðisleg tengsl.

Fyrir hönd kennara hefur formaður Kennarasambandsins setið í lífeyrissjóði. Hvernig er hann kosinn? Hann er kosinn í beinni almennri kosningu, hann hefur lýðræðislegan stuðning á bak við sig. Hvort við eigum að reyna að finna einhverja blöndu, það er nokkuð sem er alveg sjálfsagt að skoða, en ég vil vekja athygli á því að það er engin nýlunda að kosið (Forseti hringir.) sé til stjórnar í lífeyrissjóðunum.