140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

[13:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Enn og aftur koma skuldamál heimilanna til umræðu á þingi og nú í tilefni af nýlegum hæstaréttardómi sem túlkar fyrir okkur með hvaða hætti eigi að reikna vexti á ólögmætum gengistengdum lánum. Þegar dómur féll um ólögmæti gengistryggðu lánanna í júní 2010 lögðum við sjálfstæðismenn fram frumvarp í þinginu um að þau mál sem vörðuðu endurútreikning slíkra lána fengju sérstakan forgang fyrir dómstólunum. Ekki var orðið við því af stjórnarmeirihlutanum, þeirri hugmynd var ekki vel tekið. Málið endaði í einhverri nefnd og síðan kafnaði það í þinginu.

Nú stöndum við uppi tæpum tveimur árum síðar og heyrum frá Samtökum fjármálafyrirtækja, við heyrum frá bönkunum sjálfum, við heyrum frá formanni efnahags- og viðskiptanefndar að það eigi eftir að fá fordæmi til að túlka niðurstöðu dómsins enn frekar til að við vitum hvernig meðhöndla eigi þessi mál í raun og veru, hvert fordæmisgildi dóms Hæstaréttar sé.

Mig langar af þessari ástæðu til að bera það upp við hæstv. ráðherra hvort nú sé ekki kominn tími til að fallast á tæplega tveggja ára gamla hugmynd okkar sjálfstæðismanna — það liggur fyrir þinginu þingmál um þetta efni — og koma því þannig fyrir að mál sem varða endurútreikning gengislánanna fái forgang í dómskerfinu. Er það ekki lágmarkskrafa að fólki eigi nú rétt á því, þegar menn hafa dregið lappirnar í rúm tvö ár með að verða við þessari sjálfsögðu tillögu, að því máli sé komið í þann farveg?