140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

[13:40]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að minna á að lögin í desember 2010 voru sett til að reyna að hraða úrvinnslu þessara mála og það gerðu þau sannarlega. Þau tóku af skarið um að meðhöndla skyldi öll heimilislán, gjaldeyristengd, með þeim hætti að litið skyldi á þau sem ólögleg og þau endurreiknuð á þann hátt sem menn töldu sig þá hafa bestar forsendur fyrir. Í aðalatriðum hefur Hæstiréttur síðan staðfest þá aðferð þó að hann hafi skilgreint þá undantekningu frá meginreglunni sem þetta nýjasta mál varðar.

Nú eru málin fjölmörg og af mismunandi tagi sem sjálfsagt eru einhvers staðar á leiðinni eða í kerfinu þannig að án efa þyrfti þá að átta sig á hvers konar grundvallarforgangsmálum eigi að veita flýtimeðferð til að reyna að hraða úrlausn þessara mála að því marki sem það verður niðurstaðan á greiningu þessa dóms að það þurfi frekari atbeina dómstóla við til að hægt sé með einhverjum hætti að vinna úr málinu og það sem hraðast. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að mér finnst alveg rétt og skylt og sjálfsagt að fara yfir það: Þarf eitthvað frekara við af því tagi sem hv. þingmaður spyr um?