140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

skuldamál heimilanna og málefni Fjármálaeftirlitsins.

[13:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt, hér eru bornar upp tvær viðamiklar spurningar. Svarið við þeirri fyrri var býsna snubbótt, svo ég noti það orð. Ég ítreka spurningu mína um hvort unnið sé að einhverjum sérstökum tillögum í ráðuneytinu varðandi almenna leiðréttingu á lánum.

Varðandi hitt málið velti ég fyrir mér þegar stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins gengur á fund ráðherra og upplýsir um ferlið; var þá upplýst um uppsagnarferlið eða hvaða ferli var upplýst um á þeim fundi?

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra beint að því hvort rætt hafi verið í þeim viðræðum þegar gerð var grein fyrir ferlinu, að í lok þess yrði forstjóranum væntanlega sagt upp. Var uppsögnin rædd á þessum fundi? Það er rétt sem hæstv. ráðherra kemur hér á framfæri, stofnunin þarf að sjálfsögðu að vera sjálfstæð og taka sínar ákvarðanir en þá er mjög mikilvægt fyrir okkur að vita að það sé (Forseti hringir.) örugglega svo.