140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

skuldamál heimilanna og málefni Fjármálaeftirlitsins.

[13:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú hef ég eina mínútu til að reyna að svara aftur þessum tveimur viðamiklu spurningum. Mér er vonandi nokkur vorkunn að ég get ekki gefið tæmandi svör um öll skuldamál heimilanna og mál Fjármálaeftirlitsins á svo knöppum tíma.

Ég endurtek bara að ráðherranefnd og starfshópar eru að störfum og eru að fjalla um ýmsa þætti þessara skuldamála. Þar var sérstaklega í forgrunni það sem út af stendur til að hægt sé að ljúka þeim aðgerðum sem í gangi eru, til dæmis vandamálið með lánsféð og fleira í þeim dúr, en í raun er líka verið að fara yfir úrvinnslu þessara mála almennt, þar á meðal að efla upplýsingagjöf í samstarfi við Hagstofuna um það hvernig skuldaþróunin er, vanskilaþróunin og annað í þeim dúr.

Varðandi Fjármálaeftirlitið var þetta svona, það var upplýsingagjöf um það ferli sem málið hafði verið sett í og búið að vera í um nokkurn tíma af hálfu stjórnar Fjármálaeftirlitsins með því að afla álitsgerða frá lögmönnum o.s.frv. (Forseti hringir.) Kom það fram á þessum fundi að rætt yrði við forstjórann í framhaldinu, háð niðurstöðu þeirra álitsgerða, og reynt að leysa úr málinu í samræmi við það sem stjórnin teldi efni standa til á grundvelli niðurstöðu þeirra gagna sem hún hefði í höndunum.