140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

Evrópusambandsmálefni.

[13:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Þetta var mjög athyglisvert og mikilvægt svar. Þetta þurfum við öll að vita. Stundum er talað eins og mögulegt evrusamstarf eða gjaldmiðilssamstarf við Evrópusambandið og Evrópska seðlabankann sé bara einhver framtíðarmúsík. Það er sem sagt bara handan við hornið. Eins og fram kemur í máli hæstv. utanríkisráðherra á sér stað stefnumörkun fyrir samningaviðræðurnar um þann kafla þessa dagana. Auðvitað bíð ég spenntur eftir því að heyra hvaða meginlínur verða lagðar af hálfu ríkisstjórnarinnar í umræðu um gjaldmiðilsmál og efnahagsmál í aðildarviðræðunum. Hæstv. utanríkisráðherra getur kannski gefið okkur nokkur stikkorð um það í svari sínu á eftir.

Eins vil ég aðeins rifja upp stefnuna í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar. Hún er sem sagt sú að fara inn í ERM II skömmu eftir að aðildin verður samþykkt, ef hún verður samþykkt, en einnig er þarna ágætistillaga sem á meðal annars rætur sínar að rekja til ágætrar fyrrverandi stefnu Framsóknarflokksins í málaflokknum um að taka upp gjaldmiðilssamstarf (Forseti hringir.) þegar í upphafi sjálfra viðræðnanna. Mig langar að vita hvort það hafi eitthvað verið rætt.