140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

Evrópusambandsmálefni.

[13:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Gjaldmiðilssamstarf af því tagi sem hv. þingmaður nefndi áðan hefur verið rætt. Ég hef rætt það sjálfur við ýmsa forustumenn Evrópusambandsins og meðal annars núverandi efnahagsstjóra Evrópusambandsins. Allar kröfur og óskir af hálfu Íslendinga munu hins vegar miðast við það sem kemur úr samningahópnum. Hann samanstendur af okkar besta fólki á þessu sviði, þar eru fulltrúar vinnumarkaðarins, þar veitir forustu sjálfur seðlabankastjórinn sem við teljum að sé sá (Gripið fram í.) sem hafi okkar bestu sýn á hvað þarf. (GBS: Nei.) Þeir munu móta fyrir okkar hönd þær kröfur sem við munum leggja fram og verða síðan teknar til skoðunar í samninganefndinni og síðan í ráðherranefnd og jafnvel í ríkisstjórninni. Ef ágreiningur er um það, sem ég á ekki von á, verður það væntanlega rætt í þinginu. Í öllu falli verður það kynnt þinginu.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að gefa hv. þingmanni nein sérstök stikkorð. Við fylgjum mjög nákvæmlega því sem segir í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar og þar liggur það algjörlega ljóst fyrir að Íslendingar stefna að því ef af aðild verður að taka upp evruna. (Forseti hringir.) Við munum stefna að því að fara í ERM II eins fljótt og auðið er. Eistum og Slóvenum tókst það tveimur mánuðum eftir að aðild var fullgilt.