140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

endurútreikningur lána og nauðungarsölur.

[14:01]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég get tekið undir það að flýta þurfi þessum málum í gegnum dómskerfið, fólki var beint þangað. Ég held að úr því sem komið er þurfi að klára þessi mál á þeim vettvangi.

Mig langar að spyrja ráðherrann nánar út í þann samráðsvettvang sem hann nefndi í fyrra svari sínu. Hverjir eru aðilar að honum og hvernig er hann til kominn? Mig langar líka að vekja athygli á að gífurlega margir hafa misst eignir sínar vegna gengistryggðra lána. Í svari þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra við fyrirspurn Þórs Saaris þingmanns á 138. löggjafarþingi stendur hreinlega að menn viti það ekki og það geti tekið marga mannsmánuði að finna út úr því hve margir hafa misst eignir sínar vegna ólögmætra gengistryggðra lána.