140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

hjúkrunarrými og lyfjakostnaður.

[14:03]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Á laugardaginn birtist grein í Morgunblaðinu þar sem Gísli Páll Pálsson, forstjóri og formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, vekur athygli á því með hvaða hætti niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni birtist í rekstri hjúkrunarheimila landsins. Þar kemur fram að þeir sem þar stjórna neyðist til þess, vegna niðurskurðar sem orðinn er á starfsemi heimilanna, að velja úr þeim sem sækja um að verða nýir heimilismenn á þessum heimilum þá einstaklinga sem eru ódýrastir, þ.e. hafna þeim sem nota dýrustu lyfin. Því er rétt að gefa hæstv. velferðarráðherra tækifæri hér til að svara því hvernig ráðuneytið og ráðherrann ætla að bregðast við vegna þessarar birtingarmyndar niðurskurðarins og hvaða lausnir eru í farvatninu og í undirbúningi í ráðuneytinu.

Í umfjöllun sem átt hefur sér stað í kjölfar þessarar greinar kemur fram að þjónustusamningar sem kallað hefur verið eftir af hálfu hjúkrunarheimilanna hafa ekki enn komið til framkvæmda. Það er enn verið að vinna að gerð þessara þjónustusamninga og í áratug, að mér skilst, hafa hjúkrunarheimilin beðið eftir að slíkir samningar komist á. Því óska ég eftir að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um hvenær einhverra frétta er að vænta af þeim samningum.

Í öllu þessu máli kristallast að betra er að hafa einhverja heildarsýn á hlutina. Þeir einstaklingar sem ekki komast inn á hjúkrunarheimili af þessum sökum eru á spítala, flestallir eru á spítala og eru þar á kostnað ríkisins. Hér er í rauninni verið að kasta krónunni og spara aurinn og spurning hvort þetta sé gáfuleg aðferðafræði. Hér er að koma í ljós það sem við ræddum við fjárlagagerðina, að horfa þurfi betur á heildarmyndina þegar verið er að skoða niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni og að mínu mati er þetta birtingarmynd þess að þar sé of langt gengið.

Síðan langar mig að biðja hæstv. ráðherra, af því að ég sá í frétt í Morgunblaðinu 20. febrúar (Forseti hringir.) að ráðherrann vísar til þess að í þessu birtist ákveðið siðleysi forstöðumanna, að upplýsa okkur aðeins frekar um hvað hann eigi við með því.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biðst velvirðingar á því að klukkan í ræðupúltinu virkar ekki sem skyldi en mæling fer fram í borði forseta.)