140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

starfsumhverfi sjávarútvegsins.

[14:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir tölu hans og þær upplýsingar sem komu fram í máli hans. Augljóst má vera af þeim tölum sem hæstv. ráðherra fór yfir að stjórnkerfi fiskveiðanna, þó að það starfi nú í þeirri óvissu sem ríkisstjórnin hefur skapað, er þó að virka þannig, í samspili við aukna fiskveiði og um margt ágætt gengi á mörkuðum, að verið er að skapa verðmæti. Um margt var þessi ræða ágæt auglýsing fyrir núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og þá kosti sem það býr yfir. Það er ekki þar með sagt að það sé fullkomið en þetta var ágætt dæmi um það hvernig kerfið getur virkað.

Það er staðreynd, frú forseti, að núverandi ríkisstjórn hefur skapað óþolandi, pólitíska óvissu í kringum sjávarútveginn. Er skemmst að minnast þeirra tilrauna sem fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason stóð fyrir þegar hann kom til þings með sjávarútvegsfrumvarp sitt, sem hæstv. utanríkisráðherra, þó að hann hafi ekki leitast eftir því að vera kallaður sérstakur sérfræðingur í málefnum sjávarútvegsins, líkti við bílslys. Það er ágætt að hafa það í huga. En það sem ég vil auðvitað vekja athygli á er að ekki er langt síðan hæstv. sjávarútvegsráðherra lýsti því yfir að það tæki hann ekki nema um það bil þrjár vikur að ganga svo frá málum að koma mætti með nýtt sjávarútvegsfrumvarp inn í þingið sem hægt væri að taka til afgreiðslu. (Gripið fram í.)

Menn vita að það er mikið álag á hæstv. ráðherra og mörgum þótti þetta nokkuð hraustlega mælt. En nú er svo komið að liðnir eru tveir mánuðir síðan hæstv. ráðherra tók við starfi sínu og ástæða er fyrir okkur að hafa áhyggjur af því hvers vegna ekki er komið frumvarp til þingsins sem við getum rætt innan eðlilegs tímaramma, vandað okkur og síðan breytt þeim lögum sem þarf að breyta ef þingvilji er til. Hættan er auðvitað sú að eina ferðina enn verði hlaupið upp til handa og fóta, ekki leitað samráðs við sjávarútveginn og að í stað þess að talað verði við sjávarútveginn verði talað til hans. (Forseti hringir.) Það verði þannig staðið að málum að hin pólitíska óvissa sem hefur ríkt muni halda áfram og (Forseti hringir.) ekki verði þau verðmæti dregin úr sjó og búin til úr þeim verðmæti fyrir okkur Íslendinga sem við svo sannarlega eigum skilið (Forseti hringir.) og þurfum á að halda.