140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

starfsumhverfi sjávarútvegsins.

[14:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég þakka þessa umræðu því að aldrei er of oft kveðin sú vísa að ræða hér sjávarútvegsmál og hversu mikilvægur sjávarútvegur er íslensku þjóðinni.

Það er undarlegt að hlusta á hæstv. sjávarútvegsráðherra segja úr ræðustól Alþingis í þessum umræðum að menn megi ekki týna sér í umræðunni um stjórn fiskveiða. Sjávarútvegsumræðan verður ekki rædd nema með því að tala akkúrat um stjórn fiskveiða. Sú ríkisstjórn sem nú situr kom á eftirminnilegan hátt með frumvarp inn í þingið á vordögum sem var rekið til baka. Þegar ríkisstjórnin var mynduð töluðu ríkisstjórnarflokkarnir svoleiðis að þeir ætluðu að breyta og kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu nánast fyrir hádegi daginn eftir kosningar, svo auðvelt væri það. Þannig höfðu þessir popúlistar fengið til sín mikið fylgi í kosningum, svo mikið að þeir gátu myndað ríkisstjórn um til dæmis fyrningarleið Samfylkingarinnar. Af þessu hefur ekki orðið eins og allir vita og hefur sjávarútvegurinn aldrei verið okkur mikilvægari en nú, byggður á þeim grunni sem Framsóknarflokkur lagði meðal annarra upp með þegar hann sat í ríkisstjórn og er ég afar stolt af því. (Gripið fram í.)

Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði að nú væri margt hagfellt fyrir greinina, verð á mörkuðum væri hátt, stofnanir okkar væru öflugri, makríllinn spriklaði hér í landhelginni og loðnan væri komin hingað í stórum stíl. Það er ekki ríkisstjórninni að þakka, frú forseti. Hingað höfum við fengið óvænt inn í landhelgina nýja auðlind sem heitir makríll og við megum ekki gleyma að standa vörð um hana, sérstaklega vegna þess að við stöndum [Kliður í þingsal.] í viðræðum við Evrópusambandið sem sækir það eitt hingað til lands að komast yfir auðlindir okkar. (Gripið fram í: En miðin …)

Ég vil halda á lofti þessum sjónarmiðum, frú forseti, því að þetta er það sem máli skiptir (Forseti hringir.) fyrir þjóðina, sjávarútvegurinn verður að standa föstum fótum (Forseti hringir.) og hafa frið til þess fyrir ríkisstjórninni. [Kliður í þingsal.]