140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

starfsumhverfi sjávarútvegsins.

[14:37]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er skelfilegt að hlusta á hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur tala um sjávarútveg eins og erlendur skiptinemi á fyrsta degi á Íslandi. Nóg um það.

Það er eftir því tekið þegar hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon fer rétt með. Hann fór alveg rétt með þegar hann sagði í ávarpi sínu áðan að aflið sem væri að draga íslenskt samfélag upp úr efnahagslægðinni væri sjávarútvegurinn. Þrátt fyrir óvissuástand af hálfu stjórnvalda, þrátt fyrir aðför að eðlilegum framgangi, uppbyggingu og endurnýjun skilar sjávarútvegurinn árangri sem heldur íslensku þjóðinni á floti umfram allar aðrar atvinnugreinar í landinu. Þetta er staðreynd og ber að þakka það og fagna.

Óvissunni verður að linna. Talað er um að mikil endurnýjun sé í sjávarútvegi. Það er rangt. Það er mikið aðhald og mikil passasemi að fara ekki í framkvæmdir, hvorki í endurnýjun, uppbyggingu né nýliðun í skipaflota, vegna þessarar óvissu. Það veit hæstv. ráðherra manna best. Vonandi rætist úr því en þetta gengur ekki eins og það er. Það skiptir öllu að rekstrargrundvöllurinn sé tryggur fyrir afrakstur í sjávarútvegi og þjóðina alla og hafi styrka stöðu, ekki til að halda að sér höndum eins og gert er nú heldur til að halda áfram.

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, fyrir að vekja máls á þessu. Það er engin spurning að það er lífsspursmál í stöðunni að spúla dekkið, losna við óværuna af dekkinu, ríkisstjórnina burtu. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Hvenær varstu á sjó?)